2.2. Þróun og forsendur fyrir fjar- og gagnavinnslu í Eyjafirði

2.2.1 Þróun í fjar- og gagnavinnslu í Eyjafirði

Árið 1992 vann Iðnþróunarfélag Eyjafjarðar skýrslu að beiðni áhugahóps um fjarvinnslu. Þar segir m.a. að viðleitni til að koma á fót fjarvinnslu á landsbyggðinni hafi fyrst komið fram á Hvammstanga, Vík, Selfossi og Seyðisfirði í kringum 1989. Forsaga þessa máls er að í mars 1990 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu, þar sem ríkisstjórninni var falið að kanna með hvaða hætti unnt væri að nota tölvu- og fjarskiptatækni til að flytja verkefni á vegum ríkisstofnana og annarra aðila frá höfuðborgarsvæðinu til annarra landshluta. Í framhaldi af því ákvað ríkisstjórnin að ráðuneyti og stofnanir flyttu gagnaskráningu og ritvinnslu til fjarvinnslustofa á landsbyggðinni eftir því sem tök væru á. Byggðastofnun var falið að sjá um framkvæmd málsins og var útvegað fé vegna kostnaðar við flutninginn. Auglýst var eftir aðilum á landsbyggðinni sem hefðu áhuga á að taka að sér fjarvinnslu. Um 60 aðilar, með mismikla reynslu og þekkingu, sendu inn upplýsingar um starfsfólk tækjakost o.s.frv. Þessar upplýsingar voru skráðar og gefnar út í bæklingi sem Byggðastofnun dreifði til ríkisstofnana, og var ætlast til að stofnanir og fjarvinnslufyrirtækin semdu milliliðalaust.

Skemmst er frá því að segja að í skýrslu Iðnþróunarfélagsins frá 1992 er áætlað að um 10-20 fyrirtæki á landsbyggðinni stundi fjarvinnslu. Þessir aðilar stunduðu oftast aðra tölvuvinnslu samhliða, t.d. bókhaldsþjónustu, bændabókhald o.fl. Þannig hefur viss sérþekking verið notuð sem grunnur undir starfsemina. Á þessum tíma virtist aðeins eitt fyrirtæki svo til eingöngu lifa á fjarvinnsluverkefnum, þ.e. verkefnum frá einstaklingum og hinu opinbera á höfuðborgarsvæðinu, en það var Orðtak hf. á Hvammstanga. Í sömu skýrslu kemur fram að aðeins lítill hluti verkefna fyrirtækja í fjarvinnslu, hafi komið frá opinberum aðilum. Svo virðist sem áhugi opinberra stofnana, á að láta vinna ýmis verkefni í fjarvinnslu, hafi verið töluvert minni þegar á reyndi en virtist vera í fyrstu. Nefndar eru nokkrar hugsanlegar orsakir:

Vanþekking á þeim möguleikum sem tæknin býður upp á
Vantraust á þeim sem bjóða upp á fjarvinnslu
Vöntun á kynningu fjarvinnslufyrirtækja, þ.e. markaðsstarfi
Þjónustan þykir of dýr. Virðisaukaskattur er lagður á fjarvinnsluverkefni sem unnin eru á vegum fyrirtækja, en að sjálfsögðu ekki ef stofnanir vinna sjálfar verkefnin
Tilhneiging stofnana til að ráða sér sjálfar og stækka

Ekki leikur vafi á að sú aðferð, að vinna verkefni í fjarlægð frá þeim stað þar sem þörfin verður til, þarf sinn aðlögunartíma meðal fólks. Með þeirri tækni sem nú er í boði árið 2000 ætti þó ekki lengur að vera til staðar vantraust á tæknilegar lausnir.

Það er ljóst að rekstur fjarvinnslustofa verður að byggja á ákveðinni sérþekkingu og sérhæfingu því samkeppni um verkefnin mun eflaust aukast. Í ljósi útboðsstefnu ríkisins frá 1993 og laga um framkvæmd útboða er ótrúlegt að verkefnum verði deilt út til fjarvinnslufyrirtækja, heldur munu þau verða boðin út, nema að um hreinan flutning á stofnunum sé að ræða eða hluta stofnana. Við framkvæmd útboða er óheimilt að gera fyrirtækjum á landsbyggðinni hærra undir höfði en samsvarandi fyrirtækjum í þéttbýli. Enda má segja að það sé eðlileg krafa að bjóðendur geti keppt um verkefni við hvern sem er, óháð staðsetningu.

 


Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar - Strandgötu 29 - 600 Akureyri
Sími 4612740 - Fax 4612729 - Netfang: - Veffang: afe.is