Fréttir

Almennt | 18. mars 2004 - kl. 17:14

Hundsa embættismenn stefnu stjórnvalda?
Fjörlegar umræður um störf á vegum ríkisins á hádegisverðarfundi í dag

Á fundinum hélt Halldór R. Gíslason frá AFE fyrirlestur um nýútkomna samanburðarskýrslu þar sem borin eru saman ríkisstörf í Eyjafirði og á höfuðborgarsvæðinu.

 

Í máli Halldórs kom fram að um 72,2% starfa á vegum ríkisins eru á höfuðborgarsvæðinu þar sem búa um 62,4% landsmanna en 6,5% starfanna eru í Eyjafirði þar sem búa 7,6% landsmanna. Til að jafna þetta hlutfall þyrfti að fjölga störfum í Eyjafirði um 387, sem jafngildir 3 þremur Seðlabönkum Íslands, eða fækka á höfuðborgarsvæðinu um 3.180, sem jafngildir um 26 seðlabönkum Íslands.

 

Að loknum fyrirlestri Halldórs tóku við fjörlegar pallborðsumræður þar sem þátt tóku Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri Akureyrar, alþingismennirnir Birkir J. Jónsson og Einar Már Sigurðsson, Þorsteinn Gunnarsson rektor Háskólans á Akureyri og Grétar Þór Eyþórsson forstöðumaður RHA og Byggðarannsóknarstofnunar.

 

Birkir J. Jónsson hóf umræður og vakti athygli á því að ýmislegt hafi verið gert til að fjölga störfum í Eyjafirði og ekki alltaf gengið þrautalaust.

 

Í máli Einars Más kom fram að það er með ólíkindum hvernig opinberum störfum í sjávarútvegi væri öllum fundinn staður í höfuðborginni þar sem atvinnugreinin er klárlega að stærstum hluta annarsstaðar.

 

Kristjáni Þór fannst áætlanir um eflingu ríkisstarfa í Eyjafirði ómarkviss og nefndi Lýðheilsustofnunina sem dæmi um þetta sem hefði átt að staðsetja á Akureyri en hefði svo endað í Reykjavík. Kristján vildi meina að setja þyrfti þessa umræðu á annað plan en pólitískt argaþras.

 

Grétar Þór þekkir vel til svipaðra mála á norðurlöndum og sagði hann frá því að Norska Stórþingið hefði nýverið samþykkt flutning á 8 eftirlitsstofnunum á vegum ríkisins út fyrir höfuðborgina. Ástæðan fyrir því er að koma eftirlitsstofnunum í hæfilega fjarlægð frá þeim sem á að hafa eftirlit með, kallaði Grétar þetta fyrirbæri “capture” þar sem þessir aðilar hittust í kokteilboðum og á öðrum stöðum sem gerði eftirlitið hugsanlega ekki eins skilvirkt eins og það ætti að vera. Þetta er umhugsunarefni fyrir lítið land eins og Ísland. Svíar hafa einnig sett niður fjölmargar stofnanir utan höfuðborgarsvæðisins og hafa þeir gert það til að létta á þrýstingi af höfuðborgarsvæðinu. Grétar sagðist hafa reiknað það gróflega út að miðað við það sem Norðmenn eru að gera hjá sér myndi það jafngilda tilfærslu á um 250 störfum hér á landi.

 

Þorsteinn Gunnarsson rektor Háskólans á Akureyri taldi það stórt vandamál í umræðunni væri að menn myndu ekki almennt líta á ríkisstofnanir sem hluta af atvinnulífinu í landinu heldur eitthvað sem stæði utan við það. Þorsteinn kvað það merkilegt að á meðan ríkið væri að skera niður úti á landi virtist sem vöxturinn á höfuðborgarsvæðinu væri óheftur. Það væri einnig staðreynd að fjölmiðlar sinna þessum málaflokki lítið og æðstu embættismönnum hugnast ekki að tala um þetta mál og væru hreinlega á móti því.

 

Einn fundarmanna kvaddi sér hljóðs í pontu og fór yfir þær byggðaáætlanir sem ráðist hafði verið í og sagði að núverandi byggðaáætlun væri sú þriðja sem gerð hefði verið. Alþingi hefði áður samþykkt að fjölga störfum á vegum ríkisins úti á landi á ákveðnu tímabili. Reynslan hefði síðan verið sú að störfum fjölgaði á höfuðborgarsvæðinu en fækkaði utan þess þvert á samþykktir Alþingis. Það er því von að menn spyrðu hver ræður í landinu og hver á framfylgja vilja Alþingis?  Ekki ætlaði fyrirspyrjandi alþingismönnum svo “einbeittan brotavilja” á eigin samþykktum, en spurði hvar liggur ábyrgðin?

 

Fjöldi annara fundarmanna tóku til máls og var að heyra að mikil samstaða væri meðal manna um að tími aðgerða væri kominn.  Málið er greinilega þverpólitískt og vilji í öllum flokkum til að auka hlut ríkisstarfa í Eyjafirði.  Þrátt fyrir fjöldamargar skýrslur, fundi og greinar um þetta virðist sem við séum enn á sama stað í þessum málum. Það er staðreynd að þrátt fyrir að vilji Alþingis hafi lengi verið að auka hlut ríkisstarfa í Eyjafirði þá virðist sem einhver tregða sé í kerfinu og vilji Alþingis hefur ekki verið framkvæmdur.

Höf.

Póstlisti

Skráðu þig í póstlistann okkar

Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar - Borgir við Norðurslóð - 600 Akureyri
Sími: 460 5700 - Fax: 460 5709 - Netfang: - Heimasíða: afe.is