6.2 Tillaga um verkefni í fjar- og gagnavinnslu fyrir Eyjafjörð

Verkefni nr. 5: Fjarkennslumiðstöð (kennsluefni fyrir Internetið)

Lýsing
Verkefnið byggir á stofnsetningu fjarkennslumiðstöðvar. Hugmyndin snýst um að á svæðinu sé nýtt sú þekking sem er til staðar á ýmsum sviðum, þ.á.m. innan háskólans, og henni miðlað til annarra landshluta. Framkvæmdin myndi eiga sér stað með aðstoð fjarfundabúnaðar og Internets, en upp á síðkastið hafa komið fram á sjónarsviðið nýjar lausnir í fjarkennslu sem byggja á notkun Internetsins.

Tæknilegir örðugleikar og þekking
Samkvæmt mati úr tengslariti er hugmyndin talin mjög vel tæknilega framkvæmanleg (5 stig), þannig að ekki virðast miklar hindranir vera til staðar í þeim efnum. Á Akureyri hefur nú þegar mikið verið gert af því að stunda fjarkennslu, af hálfu Háskólans á Akureyri og á vegum Verkmenntaskólans sem hefur verið í fararbroddi í fjarkennslu undanfarin ár.

Metinn kostnaður og arðsemi
Hugmyndin telst ekki vera kostnaðarsöm. Í liðnum "metinn kostnaður" í tengslariti fær hugmyndin einkunnina 5, sem er besta útkoma. Þessi útkoma er sjálfsagt byggð á því að búnaður til þess að stunda fjarkennslu er nú þegar til staðar og er auk þess ekki mjög dýr.

Möguleiki á framkvæmd
Samkvæmt tengslariti er hugmyndin talin vera vel framkvæmanleg (4). Helst þarf að kanna undirtektir innan menntamálaráðuneytis. Hugmyndin ætti að vera vel framkvæmanleg á Akureyri, ekki síst vegna þeirrar reynslu sem menn þar yfir á sviði fjarkennslu.

Staða auðlinda- og hæfnisþátta til að framkvæma verkefnið
Þrátt fyrir að í SVÓT-greiningu komi þekking svæðisins fram sem ákveðinn veikleiki almennt litið, er, eins og komið hefur fram, mikil þekking eins og gefur að skilja innan HA og menntaskólanna. Þetta er þekking sem er mikilvæg auðlind og á fyllilega erindi til ýmissa markhópa á landinu með aðstoð fjarkennslubúnaðar.

Tillaga um aðgerð
Lagt er til að málið verði rætt meðal hlutaðeigandi aðila á svæðinu. Ákveðið verði með hvaða hætti best sé að reka slíka fjarkennslumiðstöð, með hvers konar búnaði o.s.frv. Viðræður þurfa að eiga sér stað við menntamálaráðuneytið. Hugsanlega gæti átt sér stað samvinna við hina nýju Símenntunarmiðstöð sem nú er verið að koma á fót.


Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar - Strandgötu 29 - 600 Akureyri
Sími 4612740 - Fax 4612729 - Netfang: - Veffang: afe.is