Samstarf sem skapar tugi nýrra starfa

Fulltrúar Íslenskrar erfðagreiningar og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, hafa skrifað undir samning sem felur í sér viðamikil samstarfs- og þróunarverkefni, en þau munu skapa forsendur fyrir tugum nýrra hátækni- og sérfræðistarfa á Akureyri. ÍE mun stofna hugbúnaðardeild á Akureyri og fjármagna fyrst í stað innréttingu húsnæðis í viðbyggingu við FSA auk þess að ráðast í framkvæmdir við nýbyggingu fyrir að m.a. hálfan milljarð króna á næstu þremur árum. Forsenda fyrir samningum er sú yfirgripsmikla þekking sem fyrir er innan sjúkrahússins.

Þá var við sama tækifæri skrifað undir samning milli ÍE og Háskólans á Akureyri um þá fyrirætlan að stofna upplýsingatæknideild við háskólann með stuðningi ÍE, bæði faglegum og fjárhagslegum.

 

Ný störf skipta tugum

Samkvæmt Halldóri Jónssyni, forstjóra FSA, verður unnið að gerð rafrænnar sjúkraskrár, samskiptakerfi og notendaviðmót fyrir samræmt sjúkraskrárkerfi, þróun staðlaðra spurningalista og sérstakra sjúkraskrárkerfa, vefrænt viðmót upplýsinga fyrir sjúklinga og söfnun upplýsinga frá sjúklingum, þróun úrlestursforrita fyrir myndgreiningu, rafrænn flutningur upplýsinga milli sjúkraskrárkerfa og gerð hugbúnaðar til kostnaðargreiningar í heilbrigðisþjónustu. Mörg þessara verkefna munu hafa mikil áhrif á uppbyggingu heilbrigðiskerfisins á Íslandi til framtíðar, þau munu festa það í sessi og skapa forsendur til þróunar á nýjum þjónustuþáttum og lausnum sem ekki eiga sér hliðstæðu.

Ekki er hægt að sjá fyrir hversu mörg störf munu skapast á Akureyri í kjölfar samnings ÍE og FSA, en þau munu skipta tugum. Um er að ræða ný störf vegna starfsemi ÍE norðan heiða, störf sem til koma vegna samstarfsverkefna og loks störf sem verða til við það að þjónustuþættir FSA munu eflast.

Vegna hinnar nýju starfsemi skapast umtalsverð húsnæðisþörf og hefur sú stefna verið mörkuð að ljúka því sem fyrst frágangi á óinnréttuðu húsnæði í viðbyggingu við FSA, samtals í um 2.500 fermetrum. Íslensk erfðagreining mun greiða fyrir fjármögnun á verkefninu. Framlög vegna húsnæðisins á fjárlögum munu síðan greiðast til ÍE á framkvæmdatímanum og að honum loknum. Hönnun mun því hefjast strax í byrjun næsta árs og framkvæmdum verður lokið eigi síðar í lok árs 2003. Heildarkostnaður við framkvæmdirnar er áætlaður um 250 milljónir króna.

 

Höfuðstöðvar ÍE á Akureyri verða á lóð FSA

Auk þessa munu ÍE og FSA láta byggja nýtt hús á lóð FSA en það verður í eigu þriðja aðila og munu ÍE og FSA leigja það af eiganda. Í húsinu verða höfuðstöðvar Íslenskrar erfðagreiningar á Akureyri sem og stjórnsýsluhluti sjúkrahússins. Ekki hefur verið ákveðið hver stærð hússins verður en rætt er um 1.600 fermetra húsnæði. Það getur þó orðið stærra því þegar hafa ýmsir innan heilbrigðiskerfisins lýst áhuga á að fá þar inni og verða þátttakendur í því þróunar- og nýsköpunarumhverfi sem ÍE og FSA skapa með þessum samningi. Gangi allar áætlanir eftir af þeim hraða sem vonast er eftir gæti nýbyggingin orðið tilbúin árið 2002, en kostnaður við hana er áætlaður nálægt 250 milljónum króna.

 

Ný braut á sviði upplýsinga- og tölvutækni við Háskólann

Háskólinn á Akureyri, og Íslensk erfðagreining hafa einnig skrifað undir samning um stofnun upplýsingatæknibrautar við háskólann sem hefur það verkefni að kenna upplýsinga- og tölvufræði til BS-prófs. Mun ÍE láta háskólanum í té faglega og fjárhagslega aðstoð vegna þessa. Nemendur í deildinni munu ganga fyrir um sumar- og afleysingastörf hjá Íslenskri erfðagreiningu.

 

Ekki góðgerðarstarfsemi

Kári Stefánsson sagðist handviss um að fyrirtækið væri að gera rétt með þessum samningum, þeir yrðu fyrirtækinu gagnlegir, "þetta er ekki góðgerðarstarfsemi, ég er sannfærður um að hvergi verður betra en hér að vinna að þessum verkefnum."

Hann nefndi að um væri að ræða verðmæt störf, ekki ritvinnslusíldarsöltun eins og hann orðaði það og baðst afsökunar á þrívegis. Störf sem lytu að því að þróa tækni til að búa til nýjungar á heilbrigðissviðinu. Með þessum aðgerðum væri einnig verið að hnika dálítið til miðjunni í þeirri íbúaþróun sem verið hefði á Íslandi síðustu ár.