Nýsköpun 2001
Nú er að komin af stað Nýsköpun 2001, sem er samkeppni um gerð viðskiptaáætlana. Að þessu sinni verður ákveðin formbreyting á keppninni og vonum við að það verði til að bæta enn frekar árangur út úr þessari keppni.
Við hér á Eyjarfjarðarsvæðinu höfum tvívegis fengið viðurkenningar í tengslum við keppnina og á síðasta ári var tillaga sú sem héðan kom sú sem vann til fyrstu verðlauna.
Við ætlum okkur að halda þessum árangri áfram og hvetjum því alla sem til þess hafa getu og áhuga að setja sig í samband við okkur. Nú er að draga fram góðar hugmyndir sem legið hafa ofaní skúffu og láta nú verða af því að verða sinn eiginn herra.
Um keppnina
Keppnin er nú haldin í þriðja sinn og að þessu sinni með evrópskum samstarfsaðilum
Vegleg peningaverðlaun í boði
Fjórir íslenskir keppendur fara áfram í evrópska samkeppni Námskeið og aðstoð fyrir þátttakendur um allt land
Aðstandendur auk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins eru Morgunblaðið, KPMG Endurskoðun hf. og Háskólinn í Reykjavík en þessir aðilar hafa undanfarin ár staðið fyrir keppninni. Sparisjóðirnir bætast nú jafnframt í hópinn og munu þeir taka virkan þátt í framkvæmdinni.
Verðlaun í Nýsköpun 2001 eru glæsileg.
Fyrstu verðlaun eru 1. milljón króna og leiðsögn sérfræðinga KPMG.
Önnur verðlaun eru 500 þúsund krónur.
Þriðju verðlaun fá fimm aðilar - 100 þúsund krónur hver.
Sparisjóðirnir munu jafnframt vera með svæðisbundin verðlaun. Þá munu fyrirtæki og nemar á framhalds- og háskólastigi fá sérstök hvatningarverðlaun.
Evrópukeppnin
Nýmæli í Nýsköpun 2001 eru að hún tengist í fyrsta sinn samkeppni sem Evrópusambandið stendur fyrir árlega. Þátttakendur í Nýsköpun 2001 keppa því jafnframt um rétt til að fara til Brussel í desember á þessu ári og taka fyrir Íslands hönd þátt í keppni um bestu evrópsku nýsköpunarverkefnin. Samband Sparisjóða hefur ákveðið að vera ásamt Nýsköpunarsjóði meginstyrktaraðili Evrópukeppninnar á Íslandi og gefur það keppninni verulega aukið vægi.
Í september á þessu ári verða kynntir sigurvegarar í Nýsköpun 2001. Við sama tilefni verða kynntir þeir fjórir aðilar sem keppa fyrir Íslands hönd í Evrópukeppninni. Í þá keppni eru allar viðskiptaáætlanir gjaldgengar sem berast fyrir 31. maí.
Í flokknum áhugaverðasta evrópska hugmyndin verður valið úr umsóknum sem berast frá háskólum eða framhaldsskólum. Annar flokkur er frumstig, hugmynd eða þróun sem er komin að framkvæmdastigi. Þriðji flokkurinn er stofnstig. Þar keppa fyrirtæki sem verið er að stofna eða eru nýstofnuð. Fjórði og síðasti flokkurinn sem keppt er í ber heitið útþensla og nýsköpun (fyrirtæki í sókn). Þess má geta að verið er að stofna samevrópskan fjárfestingarsjóð sem mun meðal annars beina sjónum sérstaklega að fyrirtækjum sem verða í keppninni. Það er því eftir miklu að slægjast að vera valinn sem fulltrúi Íslands í Brussel.
Vaxandi keppni
Þátttaka í fyrri nýsköpunarsamkeppnunum hefur verið afar góð og er óhætt að segja að þær hafi verið kveikja fjölda hugmynda hérlendis. Í fyrra skráðu sig á sjöunda hundrað manns í keppnina og á fimmta hundrað manns sóttu námskeið um gerð viðskiptaáætlana. Fyrstu verðlaun í fyrra fékk Egill Jónsson tannlæknir fyrir áhugaverða hugmynd á sviði tannviðgerða. Önnur verðlaun fékk Intelscan Solutions sem framleiðir rakamælingatæki fyrir matvælaiðnað. Margir fleiri sem þátt hafa tekið í Nýsköpunarkeppnunum hafa náð góðum árangri á viðskiptasviðinu. Má þar nefna fyrirtækin Lux Inflecta og Spaksmannsspjarir.
Markmið Nýsköpunar 2001 er að stuðla að nýsköpun og frumkvæði í þjóðfélaginu og vinna þeirri hugsun brautargengi að sjálfstæður atvinnurekstur sé æskilegur og nauðsynlegur hverju þjóðfélagi. Stefnt er að því að allir þátttakendur hafi ávinning af átakinu þótt aðeins fáir vinni til eiginlegra verðlauna.
31. maí
Skilafrestur viðskiptaáætlana er til 31. maí á þessu ári. Þeir sem taka þátt í keppninni fá handbók og excel líkan. Ráðgjafar Sparisjóðanna verða þeim sem vilja til halds og trausts við gerð viðskiptaáætlananna og er það nýjung í keppninni. Haldin verða námskeið um allt land á næstu vikum fyrir þá sem vilja vera með. Unnið verður með Atvinnuþróunarfélögum á hverjum stað en gott samstarf hefur tekist við þau um framkvæmd keppninnar á landsbyggðinni. Dómnefnd velur úr innsendum áætlunum og verða verðlaun veitt við hátíðlega athöfn í seinni hluta september. Þar verða einnig valdir fulltrúar Íslands í evrópsku keppnina sem lýkur með hátíðlegri athöfn í Brussel í desember. Við það tækifæri verða valdir sigurvegar úr hópi meira en 20 Evrópuþjóða.
Nánar á heimasíðu NSA og á heimasíðu keppninnar Nýsköpun 2001
Atvinnuþróunarfélag
Eyjafjarðar - Glerárgata 36 - 600 Akureyri
Sími: 460 5700 - Fax: 463 0998 - Netfang:
- Heimasíða: afe.is
Síðast uppfært: 25. April 2003
kl. 11:16
GMT