Formáli

Formáli

Á undanförnum misserum hefur umræða aukist um framtíðarmöguleika fjar- og gagnavinnslu og hvernig slík tækni getur skapað sóknarfæri í byggðamálum. Hugsunin hefur þá gjarnan verið sú að hægt sé að flytja störf frá fyrirtækjum og stofnunum á höfuðborgarsvæðinu til jaðarbyggða landsins. Almennt hefur umræðan takmarkast við einfaldari störf þar sem hægt er með einfaldri þjálfun að bjóða upp á nýja atvinnumöguleika í smærri byggðarlögum þar sem fjölbreytni og atvinnutækifæri eru oft af skornum skammti. Möguleikar fjar- og gagnavinnslunnar hafa þó á stundum hljómað eins og stjórnmálaleg allsherjarlausn gegn árangurslítilli byggðastefnu undanfarinna ára, en þrátt fyrir það hefur, að mati landsbyggðarmanna, gengið hægt að fá opinberar stofnanir til að vinna eftir þessum þverpólitísku áherslum.

Á síðasta ári var unnin skýrsla á vegum Byggðastofnunar, forsætisráðuneytisins og Iðntæknistofnunar sem ber heitið: “Nýsköpun í gagna- og fjarvinnslu á landsbyggðinni“. Sú skýrsla er ágæt tilraun til að greina niður eðli þeirra verkefna sem mögulegt ætti að vera að leysa með fjar- og gagnavinnslulausnum. Þar er gerður þarfur greinarmunur á eðli fjar- og gagnavinnsluverkefna. Ekki er einungis um að ræða símsvörun og skráningarvinnu heldur geta verkefnin líka miðast við að bjóða vel menntuðum sérfræðingum störf á landsbyggðinni með þátttöku í rannsóknarverkefnum, hönnun eða þróun. Slík verkefni eru í eðli sínu lausnir sem geta hentað betur kjarnabyggðum en jaðarsvæðum.

Í ljósi þeirra gagna sem komu fram í fyrrnefndri skýrslu taldi Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar (AFE) þörf á því að greina hæfni Eyjafjarðarsvæðisins til að taka við verkefnum á sviðum fjar- og gagnavinnslu og er eftirfarandi skýrsla afrakstur þeirrar vinnu.

Til að ráðast í þetta verk var fengið til samstarfs Rekstur & Ráðgjöf Norðurlandi ehf.

Framkvæmd verkefnis og skýrslugerð var í höndum Bjarna Þórs Þórólfssonar forstöðumanns nýsköpunar- og markaðssviðs AFE og Einars Áskelssonar, rekstrar- og stjórnunarráðgjafa f.h. RRN.

Markmið okkar er að niðurstöður skýrslunnar geti meðal annars nýst í tvíþættum tilgangi:

- Við greiningu og framkvæmd fjar- og gagnavinnsluverkefna sem henta vel styrkleikum starfssvæðisins og auka þannig líkur á velgengni viðkomandi verkefna.

- Við forgangsröðun verkefna á vegum sveitarstjórna og opinberra aðila sem geta stuðlað að úrbótum á annmörkum fjar- og gagnavinnslu í hverju sveitarfélagi.

Er það von AFE að skýrsla þessi verði málefnum fjar- og gagnavinnslu að gagni og liður í því að færa gagnavinnslulausnir úr stjórnmálalegu hugtaki í raunverulegan atvinnulegan ávinning landsbyggðarinnar.

Akureyri 29. maí 2000

fh. Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar
Hólmar Svansson
framkvæmdastjóri


Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar - Strandgötu 29 - 600 Akureyri
Sími 4612740 - Fax 4612729 - Netfang: - Veffang: afe.is