2.1.2
Sameiginleg uppbygging á samkeppnishæfni til alþjóðavæðingar
Hvernig
er hægt að byggja upp skilvirk tengsl á milli atvinnulífs,
skóla- og rannsóknarumhverfis, atvinnugreina og auðlinda?
Hvernig er hægt að byggja upp sterka frumatvinnugrein
sem margfaldar út frá sér stoðatvinnugreinar?
Þetta eru metnaðarfullar spurningar sem vert er að
leita svara við. Erlendar rannsóknir hafa sýnt
að þau lönd eða landssvæði sem náð
hafa ákveðnum samkeppnisyfirburðum innan atvinnugreina,
hafa skipulögð og skilvirk tengsl á milli þessara
atriða. Í því skyni má nefna niðurstöður
rannsókna Michael E. Porter sem birtar voru í bók
hans, "The competitive advantage of nations". Þar
komst Porter að því að sameiginlegar ástæður
væru fyrir því hvers vegna sum lönd eða
landssvæði náðu frekar samkeppnisyfirburðum
heldur en önnur og setti "munstrið" fram í
formi demantslaga líkans, sem byggt er á þeim
atriðum sem varpað er fram í spurningum hér
á undan. Porter heldur því fram að ef þessir
þættir eru í lagi og vel að þeim hlúð,
séu sterkar líkur á því að
landsvæði geti skapað sér samkeppnisyfirburði
í þeim atvinnugreinum sem eru ákjósanlegar.
Til fróðleiks er hér að neðan sýnd
útgáfa (mynd) af demanti Porters þar sem þættirnir
í demantinum eru gjarnan kallaðir "ákveður"
fyrir samkeppnishæfni þjóða eða svæða.
Mynd
2.1 Demantur Porters
Líkan
(demantur) Porters byggist á samspili milli fjögurra
þátta (náttúruauðæfum, frumgrein,
heimamarkaði og stoðgreinum). Í öllum þessum
þáttum leynast tækifæri geta stjórnvöld
og, eins og myndin sýnir, haft mikil áhrif á
hvernig til tekst að rækta samspil á milli þáttanna.
Allt of langt mál er að útskýra hvað
stendur á bak við líkan Porters, en í stuttu
máli má lýsa kenningunni á þann
hátt að með líkaninu er greind mikilvæg
frumgrein (fyrirtæki) sem myndar í kringum sig "fyrirtækjahnoð"
(clusters) sem stoðfyrirtæki fyrir frumgreinina. Einn
grundvallarþátturinn er öflugur heimamarkaður
með virkri samkeppni ásamt því að stjórnvöld
skapi skilyrði til ásættanlegs viðskiptaumhverfis.
Sjávarútvegur og/eða heilbrigðisgeirinn gætu
verið dæmi um frumgrein í líkani Porters
á Eyjafjarðarsvæðinu þar sem fram færi
fjar- og gagnavinnsla með hagnýtingu upplýsingatækninnar.
Ekki
er vitað til þess að neitt landssvæði á
Íslandi hafi formlega farið í greiningu samkvæmt
aðferð Porters á samkeppnishæfni til samkeppnisyfirburða,
og getur Eyjafjörður því gerst eins konar
frumkvöðull með því að vinna greiningu
af þessu tagi. Upplýsingar sem þar myndu safnast,
koma til með að nýtast á marga vegu og geta
auðveldað atvinnuþróunarstarf. Ennfremur verður
auðveldara að færa rök fyrir því
hvers vegna fjárfestar eigi að leggja fé í
fyrirtæki eða atvinnuuppbyggingu á þessu
svæði, ásamt því að hægt
er að færa sterkari rök fyrir ákveðnum
byggðaaðgerðum.
Til
að geta svarað spurningunum hér að ofan, þarf
ítarlegri greiningu á þeim atriðum sem nefnd
voru í spurningunum og er þeim ekki svarað í
þessari skýrslu. Atvinnuþróunarfélögin
á Suðurlandi og Norðurlandi vestra tóku á
árunum 1997-1998 þátt í s.k. RITTS verkefni
sem var verkefni sem tengdist nýsköpun í atvinnulífi
og var styrkt af Evrópusambandinu. Verkefninu var stjórnað
af Rannsóknarþjónustu Háskóla
Íslands og unnið í samstarfi við atvinnuþróunarfélög
á viðkomandi svæðum, undir leiðsögn
erlendra ráðgjafa. Eitt af markmiðum verkefnisins
var að greina s.k. stoðkerfi atvinnulífsins, sem
grunnundirstöðu fyrir því að hægt
sé að skapa vaxtarskilyrði fyrir reglulegri nýsköpun
í atvinnulífinu. Verkefninu lauk með skýrslu
eftir úttekt á vettvangi en ekki er vitað hvort/eða
hvernig niðurstöður verkefnisins hafa verið nýttar
í framhaldinu.
Fyrirtæki
í Eyjafirði eru vel flest lítil, samanborið
við erlend fyrirtæki sem stefna á markaðssetningu
á alþjóðamarkaði, og því
erfitt og kostnaðarsamt fyrir einstök fyrirtæki að
vera samkeppnishæf á alþjóðamarkaði.
Það er helst með sameiginlegu átaki að
hægt væri að ná árangri og vera samkeppnishæfur
á alþjóðamörkuðum. Fyrsta skrefið
í þá átt er að hafa haldbæra
vitneskju um stöðu sinna eigin innviða og því
eðlilegt að leggja til að gerð verði greining
á svæðinu samkvæmt fyrrnefndum aðferðum
Porters, með það að markmiði að átta
sig á því hvernig hægt er að koma
á kvikum og skilvirkum tengslum á milli lykilþátta
í stoðkerfi atvinnulífsins og samfélagsins.
|