3.5
Þróun og staða í gagnafjarskiptum
Í
fyrrnefndri skýrslu, "Stafrænt Ísland",
kemur fram að ekki er gert ráð fyrir að fjölgun
netnotenda verði eins mikil á næstu árum
og til þessa, en talið er að þörf hvers
og eins fyrir bandbreidd muni vaxa. Aðstandendur skýrslunnar
telja að fullnægjandi flutningsgeta (þ.m.t. kostnaður
við flutningsgetuna) fjarskiptakerfisins sé forsenda
þess að hægt sé að halda uppi samkeppnishæfu
atvinnulífi, menntun og menningu á landsbyggðinni.
Í
skýrslunni er komist að þeirri niðurstöðu
að gera megi ráð fyrir að bandbreiddarþörf
og notkun muni tvöfaldast á ári, næstu
tvö til þrjú árin hér á landi.
Sama eigi við um tenginguna við umheiminn en reynist þær
spár of lágar megi búast við að innan
fárra ára anni Cantat-3 sæstrengurinn ekki lengur
þörfum Íslendinga fyrir bandbreidd til útlanda.
Cantat-3 byggir á eldri tækni og er fyrirséð
að hann mun ekki duga lengi miðað við spár
um aukningu bandbreiddar, auk þess sem rekstrarkostnaður
hans stenst ekki samanburð við nýjustu sæstrengi.
Aðeins ein varaleið er til staðar, um gervihnött,
sem stundum getur tekið tíma að koma á og
er að auki mun tafsamari en samband um sæstreng. "Vinna
þarf að því að um ókomna framtíð
verði a.m.k. þrjár óháðar leiðir
til útlanda, vegna öryggis, þar af ein um gervihnött,"
segir í skýrslunni.
Sett
er fram sú spá í skýrslunni, að
meirihluti heimila verði komin með ISDN-tengingar við
Netið innan fárra ára en sú stefna hefur
verið sett fram í fjarskiptalögum að öll
lögheimili á landinu hafi aðgang að 128 kb/s
ISDN-tengingu, eða ígildi hennar, innan næstu þriggja
ára.
Ljósleiðaranet Landssímans teygir sig um allt
land og tengist flestum helstu þéttbýlisstöðum
landsins og mörgum smærri stöðum.* Bandbreidd
ljósleiðarans er hægt að auka nær "ótakmarkað"
ef þörf krefur með því að skipta
um búnað við hann. Eins og er býður ljósleiðari
upp á 2,5 Gb/s bandbreidd. Á höfuðborgarsvæðinu
býður Íslandssími aðgang að ljósleiðaraneti
sem síðar kann að verða útvíkkað.
Aðrir valkostir, eins og örbylgjunet, eru einnig í
boði á sama svæði. Því miður
er nokkuð víst að landsbyggðin mun ekki hafa
jafn greiðan aðgang að bandbreidd og þeir sem
búa á höfuðborgarsvæðinu. Sérstaklega
á þetta við um staði sem liggja langt (5 km
eða meira) frá símstöðvum eða þar
sem línufjöldi er ekki í samræmi við
eftirspurn.
Ekki leikur vafi á að bylting hefur átt sér
stað í gagnafjarskiptum og eftirspurn hefur vaxið
hratt. Eðli fjarskiptanna hefur breyst mikið á undanförnum
fáum árum, umfang gagnafjarskipta er orðið
meira en talfjarskipta. Nýjum fjarskiptafyrirtækjum
fjölgar og viðskiptaumhverfið breytist hratt. Fyrir
ekki mjög löngu síðan voru aðallega tvær
leiðir til gagnaflutnings, með mótaldstengingum á
almennum símalínum eða með leigulínum.
ISDN-þjónustan kom svo til sögunnar og buðust
þá tengingar á almennum símalínum
sem fóru upp í 128 kb/s . Eins og fyrr hefur verið
getið, hefur Landssíminn opnað nýja þjónustu
sem byggist á ADSL tækni og gerir kleift að hafa
fjarskipti á símalínum á margföldum
þeim hraða sem hingað til hefur þekkst. Á
síðasta ári komu líka á markað
gagnaflutningsleiðirnar ATM-netið, Frame Relay og loftnet
Skýrr, ásamt örbylgjuneti Gagnaveitunnar. Ef
spáin gengur eftir verður meðalhraði tenginga
um 1 Mb/s árið 2006.
Þrátt
fyrir gríðarlega þróun í gagnafjarskiptum
á Íslandi, þá hefur þróunin
mest verið bundin við höfuðborgarsvæðið
og á næstu árum mun landsbyggðin hvorki
vera tæknilega né kostnaðarlega samkeppnishæf
við fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu
í fjar- og gagnavinnslu. Ef tæknileg geta hindrar það
ekki mun kostnaðurinn sennilega gera það.
|