4.1 Greining auðlinda- og hæfnisþátta

4.1.1 Almenn greining auðlinda- og hæfnisþátta

Hið svokallaða resource-based view, með sýna áherslu á einstök einkenni þess fyrirbæris sem skoðað er, á rætur sýnar að rekja til Penrose (1959), Nelson og Winther (1982) o.fl., en hefur verið þróað frekar af Barney (1986), Teece (1988), Grant (1993) o.fl.

Robert Grant leggur áherslu á að auðlindir og hæfni sé skoðuð m.t.t. möguleika á að mynda samkeppnisforskot og gerir ráð fyrir að rannsakað sé samband milli auðlinda, hæfni og samkeppnisforskota. Þessi leið hefur mest verið notuð til skoðunar á fyrirtækjum, en er einnig hægt að nota fyrir svæði eins og Eyjafjörð. Samkvæmt Grant er mikilvægt að hafa í huga þegar úttekt er gerð á áþreifanlegum auðlindum hvernig hægt er að stuðla að hagkvæmari notkun þeirra. Þessi kortlagning byggist á að fyrst séu tilgreindar einstakar auðlindir, en til að skoða hvernig samkeppnisforskot myndast þarf að athuga hvernig auðlindirnar vinna saman og þá verður til almenn hæfni sem einkennir svæðið líkt og ákveðin hæfni einkennir fyrirtæki. .

Í þessum kafla er stuttlega gerð grein fyrir hugtökunum "áþreifanlegar auðlindir", "óáþreifanlegar auðlindir" og "hæfni". Síðar í skýrslunni er gerð rannsókn á Eyjafjarðarsvæðinu sem m.a. tekur mið af þeirri hugmyndafræði sem fjallað er um í þessum kafla.

Mynd 4.1 Samkeppnisforskot byggt á auðlindum.

Mynd 4.1 hér að ofan sýnir hvernig hugmyndafræði Roberts Grant og þ.a.l. þessa verkefnis er í framkvæmd. Hugmyndafræðin byggist á því að greina auðlindir svæðisins, t.d. eftir þeirri skiptingu sem myndin sýnir. Út frá greiningu og mati auðlinda- og hæfnisþátta er hægt að greina svokallaða meginhæfni svæðisins og í framhaldi af því fá haldbæra vitneskju um í hverju samkeppnisforskot svæðisins felst. Á myndinni má einnig sjá skírskotun í umfjöllun í köflum skýrslunnar.

Áþreifanlegar auðlindir
Með áþreifanlegri auðlind er verið að meina þætti sem "hægt er að festa hendur á" og hafa beina þýðingu fyrir það sem á að "búa til" úr auðlindunum.

Dæmi um áþreifanlegar auðlindir eru húsnæðisaðstaða, tæknibúnaður, nýting náttúrlegra auðlinda til matvælaframleiðslu, s.s. í landbúnaði og sjávarútvegi, framleiðsla og miðlun rafmagns, vatns og hita, samgöngur, heilbrigðisþjónusta o.fl.

Óáþreifanlegar auðlindir
Með óáþreifanlegri auðlind er verið að meina þætti sem erfitt er "að festa hendur á" en hafa samt áhrif og þýðingu fyrir það á að "búa til" úr auðlindum.

Dæmi um óáþreifanlegar auðlindir má nefna framboð af menningu, íþróttum og tómstundastarfi og aðstöðu til þessara hluta. Einnig má nefna jákvæða ímynd sem skiptir miklu máli t.a.m. hvað snertir afurðir svæðisins á innlendum og alþjóðlegum vettvangi.

Mannlegar auðlindir
Með mannlegri auðlind er átt við þætti sem maðurinn sem slíkur ávinnur sér og nýtast við hagnýtingu annarra auðlinda á viðkomandi svæði.

Mikilvægasta dæmið um mannlega auðlind er þekking mannsins og tækifæri til þekkingarsköpunar í skólum. Með þekkingu er átt við almenna grunnþekkingu sem og tæknilega og sérfræðilega þekkingu á ýmsum sviðum.

Hæfni
Hæfni svæða er út af fyrir sig óáþreifanleg og hana sem slíka er ekki hægt að selja frá svæðinu því hún verður til við flókið mynstur og samspil fólks og milli fólks og annarra auðlindaþátta . Auðlindirnar eru því grunnurinn að hæfni svæða. Í gegnum hæfni sem byggir á notkun auðlinda, getur Eyjafjarðarsvæðið greint sig frá öðrum landsvæðum.

Hlutverk bæjaryfirvalda og annarra opinberra aðila á svæðum er afar ábyrgðarmikið og mikilvægt. Viðskiptavinir þeirra eru þegnarnir sjálfir sem þurfa að vera ánægðir með þá þjónustu sem þeir greiða fyrir. Hlutverk þessara aðila er einnig mikilvægt hvað varðar virkjun og myndun sjálfsmyndar íbúanna og áhugahvatar.

Á Eyjafjarðarsvæðinu er fjölskylduvænleiki á nokkuð háu stigi. Umhverfið sem slíkt skapar þennan kost en einnig er hann myndaður af fólkinu sem þar býr og opinberum aðilum með því að þeir bjóða upp á góða leikskóla og almennt góða menntun og menntunarmöguleika.


Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar - Strandgötu 29 - 600 Akureyri
Sími 4612740 - Fax 4612729 - Netfang: - Veffang: afe.is