4.4 Önnur greining á auðlinda- og hæfnisþáttum

4.4.2 Aðrar kannanir

Á vinnslutíma verkefnisins var reynt að afla sem mestra upplýsinga sem gætu gefið vísbendingar um stöðu svæðisins og framtíðarhæfni til að skapa grundvöll til atvinnusköpunar á sviði fjar- og gagnavinnslu. Á fundum stýrihóps varð mönnum tíðrætt um þætti eins og almenna notkun og þekkingu á tölvu- og hugbúnaði á svæðinu, sem gefur vísbendingar um framtíðarþekkingu á sviði tölvu- og upplýsingatækni.

Með þetta að leiðarljósi var ákveðið að gera könnun á tölvunotkun og tölvueign á svæðinu. Í febrúar 1999 var hún gerð á vegum Gallup þar sem spurt var hvort tölva væri á heimili svarenda og hvort hún væri tengd við Internetið. Því miður voru tiltölulega fá svör sem fengust frá Eyjafjarðarsvæðinu og því niðurstöður ekki marktækar en könnunin náði yfir allt landið. Ef miðað við niðurstöður könnunarinnar þá virtust 60% heimila í Eyjafirði vera með tölvu á heimilinu, samanborðið við tæplega 70% á höfuðborgarsvæðinu. Af þeim sem eiga tölvur voru 45% tengdir við Internetið, samanborið við 53% á höfuðborgarsvæðinu. Af þessu má draga þá ályktun að tölvueign og tölvunotkun er ívið meiri á höfuðborgarsvæðinu en munurinn er ekki sláandi og varla hægt að segja að almenn þekking sé meiri. Tekið skal aftur fram að erfitt er að draga marktækar ályktanir út frá Eyjafjarðarsvæðinu í þessari könnun vegna fárra svara en svörin eru tölfræðilega marktæk á höfuðborgarsvæðinu.

Ljóst var að brýna nauðsyn bæri til að eiga marktækar upplýsingar um almenna tölvueign, tölvunotkun og Internetnotkun sem, eins og fyrr sagði, gefi ágætar vísbendingar um mögulega framtíðarþekkingu í tölvu- og upplýsingatækni. Upplýsingarnar þyrfti helst að vera hægt að greina á milli staða innan Eyjafjarðar til að athuga hugsanlegan mun. Í þessu skyni var leitað til Ráðgarðs-ÍMGallup um að athuga hvort möguleiki væri á annarri könnun af þessu tagi. Svo vildi til að verið var að undirbúa svokallaðan Akureyrarvagn, sem er safn spurninga frá ýmsum aðilum frá Akureyri. Í Akureyrarvagninum var tekið úrtak af svæðinu, rúmlega 1300 manns og var svarhlutfallið í könnuninni 67%. Könnunin var gerð á tímabilinu 4. mars-3. apríl.

Til að fá vitneskju um tölvueign-, notkun og almenna þekkingu var spurt eftirtaldra spurninga í Akureyrarvagninum:

1. Hefur þú aðgang að tölvu í vinnu, á heimili eða í skóla?
2. Hefur þú aðgang að Internetinu í vinnu, á heimili eða í skóla?
3. Hvað af eftirfarandi hugbúnaði notar þú a.m.k. í hverri viku?
(leikir, viðskiptahugbúnaður, tölvupóstur, Internet, töflureiknir og ritvinnsla)

Um 80% svöruðu fyrstu spurningunni játandi og draga má því þá ályktun að 80% af íbúum svæðisins noti tölvu að einhverju leyti. Svörin við spurningu 2 sýndu að af þeim sem nota tölvu (80%), hafa um 90% aðgang að Internetinu. Þar má draga þá ályktun að fólk eigi almennt auðvelt með að tileinka sér lágmarkstækni í fjar- og gagnavinnslu og sé byrjað að tileinka sér hana. Það sannar enn betur svörin við spurningu 3 varðandi notkun hugbúnaðar. Um 29% aðspurðra nota tölvu til að leika sér, 16% fyrir viðskiptahugbúnað, 59% fyrir tölvupóst, 68% fyrir internetið, 32% fyrir töflureikni og 61% fyrir ritvinnslu.

Athyglisvert er að bera saman niðurstöður úr þessari könnun og niðurstöður úr könnuninni sem gerð var í febrúar 1999. Samanburðurinn sést í töflunni hér að neðan. Þar sem einungis var spurt um tölvueign á heimilum árið 1999 og tengingu heimila við Internetið, þá verða eingöngu þær upplýsingar bornar saman. Þess ber að gæta að tölvunotkun mælist ekki í fjölda tölva á heimilum þar sem fólk getur haft aðgang að tölvum annars staðar, t.d. í vinnu eða skóla.

Tími mælinga
Tölvueign %
Internet %
Febrúar 1999
60,0%
45,0%
Apríl 2000
68,6%
71,4%
Mismunur
+8,6%
+26,4%

Tafla 4.7 Samanburður kannanna um tölvueign- og tengingu við Internetið.

Eins og sjá má hefur tölvueign á heimilum aukist um 8,6%, sem er töluverð aukning á rúmlega einu ári. Athyglisvert er að sjá hversu gífurleg aukning hefur orðið á tengingu við Internetið. Hér gætu spilað inn í áhrif frá því að hægt er að tengjast Internetinu ókeypis frá því um síðustu áramót. Þetta ættu að vera gleðitíðindi fyrir viðkomandi aðila því samfara aukinni tengingu ætti notkun á síma að aukast sem var vissulega tilgangurinn hjá símafyrirtækjunum sem stóðu fyrir ókeypis nettengingum.

Ljóst er að bæði tölvueign og tölvunotkun fer vaxandi á svæðinu, sem rennir stoðum undir það að góð lágmarksþekking sé til staðar á svæðinu, sem verður að teljast styrkleiki. Hversu gott eða slæmt þetta er í samanburði við önnur svæði er ekki vitað, en væri mikilvægt að vita.


Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar - Strandgötu 29 - 600 Akureyri
Sími 4612740 - Fax 4612729 - Netfang: - Veffang: afe.is