Ný söluherferð til Akureyrar fyrir erlenda ferðamenn

Flugfélag Íslands í samstarfi við Hótel KEA, Sérleyfisbíla Akureyrar og aðra ferðaþjónustuaðila, hafa sett saman pakkaferð til Akureyrar á komandi vetri, sem samanstendur af flugi frá Reykjavík til Akureyrar, móttöku á flugvellinum á Akureyri og gistingu á Hótel KEA. 

 

Flugleiðir hafa ákveðið að taka upp þessa ferð í vetrarbæklingum á erlendum mörkuðum og eru nú þegar komin út, hátt í 400.000 eintök. Bæklingunum er dreift í Þýskalandi, Frakklandi, Hollandi, Belgíu, Austurríki, Sviss, Ítalíu, Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada.

 

Ferðin er kynnt á heilsíðu í bæklingunum og fyrir utan áðurnefnda grunnþjónustu sem innifalin er í pakkanum, verður boðið uppá afþreyingarferðir, svo sem gönguferð um Akureyri og dagsferð í Mývatnssveit.

 

Markaðssetning Akureyrar verður sett til jafns við ferðir til Reykjavíkur og er þetta því ný nálgun á markaðssetningu ferða til Akureyrar utan háannatímanns og hefur ekki verið gerð áður í þessu formi.

 

Vænst er mikils af þessari markaðssetningu þó svo að gera megi ráð fyrir að uppbygging slíkra ferða taki einhvern tíma.

 

Verkefni þetta er unnið í framhaldi af átaki í vetrarferðamennsku, Stefnum Norður. Segja má að frábært tækifæri sé að ræða fyrir birgja á Norðurlandi þar sem umræddum bæklingi verður dreift á markaðssvæðum Flugleiða í Evrópu. Staðfestar upplagstölur bæklingsins eru um 400.000.

 

Steinn Lárusson Icelandair, Jón Karl Ólafsson Flugfélag Íslands og Hólmar Svansson frá AFE 

á fréttamannafundi þar sem átakið var kynnt

 

Nánari upplýsingar veita:

Jón Karl Ólafsson, Flugfélagi Íslands s. 5703000 / 8996110

Páll L. Sigurjónsson, Hótel KEA S. 4602000

Gunnar Guðmundsson, SBA S. 4623510

 

Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar - Glerárgata 36 - 600 Akureyri
Sími: 460 5700 - Fax: 463 0998 - Netfang: - Heimasíða: afe.is
Síðast uppfært: 25. April 2003 kl. 11:16 GMT