Landsbyggðin greiðir meira en hún fær Niðurstaða rannsóknarskýrslu eftir Vífil Karlsson
Reykjavík fær til sín hlutfallslega mun meira af umsvifunum ríkisins en borgin skilar til hins opinbera í formi skatttekna. Kemur þetta fram í rannsóknarskýrslu eftir Vífil Karlsson sem Calculus ehf. í Borgarnesi hefur gefið út. Skýrslan sem nefnist Um landfræðilegt misræmi á milli fjármögnunar og umsvifa hins opinbera er að finna á vef fyrirtækisins, www.calculus.is. Í fréttatilkynningu um útkomu skýrslunnar kemur fram að 75% af öllum umsvifum á vegum ríkisins séu í Reykjavík en þaðan fái hið opinbera aðeins 42% skatttekna sinna. Á Reykjanesi, þar sem Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær og Seltjarnarnes eru talin með, er ráðstafað 10% af veltu hins opinbera en þaðan kemur 31% skattteknanna.
Það sem eftir er af landinu fær til sín 15% af umsvifum hins opinbera en þaðan koma 27% af tekjunum. Fram kemur í fréttatilkynningunni að þessi neikvæði viðskiptajöfnuður hins opinbera gagnvart landsbyggðinni grafi undan hagvexti þar og er vitnað í höfundinn og sagt að miðað við umfang talnanna og hversu lengi þetta hafi staðið yfir megi líkja þessu við nýlendustefnu ýmissa ríkja hér áður fyrr þegar nýlendur voru skattpíndar en sjóðirnir síðar fluttir heim til nýlenduherranna. Því liggi beint við að færa til stofnanir eða lækka skatta á landsbyggðinni.