Almennt | 7. september 2005 - kl. 08:47 Hvar stendur þitt fyrirtæki í samanburði við þau bestu? Impra býður upp á viðmið við þau bestu í þinni grein... Impra nýsköpunarmiðstöð býður 50 framleiðslufyrirtækjum að taka þátt í Benchmarking verkefni - viðmið við þá bestu. Kostnaður við verkefnið er niðurgreiddur af Impru, en niðurstöðurnar geta verið stjórnendum mjög gagnlegar við að forgangsraða umbótum innan fyrirtækisins.
Um verkefnið
Impra, þjónustumiðstöð frumkvöðla og fyrirtækja, hefur umsjón með verkefninu Microscope, sem er greiningartæki til að bera kennsl á styrkleika / veikleika viðkomandi fyrirtækis. Við greininguna kemur fram á hvaða sviði fyrirtækisins styrkleikar /veikleikar liggja og dregið er fram hvar umbóta er þörf. Aðferðafræðin felst í því að svara spurningalista, þar sem vottaður ráðgjafi aðstoðar starfsmenn viðkomandi fyrirtækis við að svara og tryggir að matið sé rétt, miðað við aðstæður og starfsemi. Niðurstöður eru jafnóðum skráðar í gagnagrunn og viðmiðanir fengnar innan skamms tíma.
Að lokinni úttekt fær fyrirtækið í hendur myndræna framsetningu á styrk þess og veikleikum í samanburði við stóran hóp fyrirtækja í Evrópu.
Þegar fyrirtæki eru metin, er gerð greining á atriðum innan eftirfarandi þátta í rekstri viðkomandi fyrirtækis:
- Skipulag og fyrirtækjabragur
- Gæðastjórnun
- Framleiðslustjórnun
- Framleiðsluskipulag og vörustjórnun
- Nýsköpun
- Verkskipulag og starfsfyrirkomulag
- Vöruþróunarferli
- Árangursstjórnun
Vinna við úttekt
Sævar Kristinsson ráðgjafi hjá Netspori framkvæmir Microscope úttekt hjá fyrirtækinu. Úttektin fer þannig fram að ráðgjafi hefur samband við stjórnanda fyrirtækisins og í sameiningu ákvarða þeir tímasetningu og taka ákvörðun um hvaða starfsmenn taka þátt í úttektinni. Ráðgjafi mætir síðan í fyrirtækið og framkvæmir úttektina, en gera má ráð fyrir að 3-4 klst. fari í þá vinnu. Upplýsingarnar eru jafnóðum skráðar í sérstakan gagnagrunn, þannig að lokinni úttektinni liggja niðurstöður fyrir og ráðgjafinn kynnir þær í lok úttektarinnar.
Greiðslur
Fyrirtækið greiðir Netspori kr. 40.000 auk vsk. fyrir úttektina samkvæmt reikningi. Impra nýsköpunarmiðstöð styrkir viðkomandi fyrirtæki um 50% af kostnaði ráðgjafa við úttektina eða kr. 20.000. Þegar úttekt er lokið sendir fyrirtækið Impru reikning kr. 20.000 fyrir styrknum og þar sem um styrk er að ræða er reikningurinn án virðisaukaskatts.
Óski fyrirtækið eftir sérstakri úttektarskýrslu greiða þau ráðgjafa Netspors sérstaklega fyrir þá vinnu án aðkomu eða styrks frá Impru.
Áhugasamir geta haft samband við Sigurð Steingrímsson hjá Impru nýsköpunarmiðstöð.
Netfang:
Sími: 460-7972 Höf. |