Í byrjun júní mun Tempra ehf. hefja framleiðslu á frauðplastkössum á Dalvík í samstarfi við Sæplast Dalvík ehf., en bæði þessi félög eru dótturfélög Promens hf. Tempra er með umbúðaverksmiðju í Hafnarfirði og einnig hefur fyrirtækið um hríð verið með framleiðslu á frauðplastkössum á Reyðarfirði fyrir fiskútflutning. Ákveðið hefur verið að hætta framleiðslunni á Reyðarfirði og flytja tækjabúnaðinn til Dalvíkur, þar sem honum verður komið fyrir í húsakynnum Sæplasts í maí.
Páll Sigvaldason, framkvæmdastjóri Tempru ehf., segir að með samdrætti í fiskeldi á Austurlandi sé fyrirsjáanlegt að frauðplastkassaverksmiðjan á Reyðarfirði verði verkefnalaus, um stundarsakir a.m.k. “Til þess að nýta vélbúnaðinn sem best ákváðum við því að flytja framleiðsluna í húsnæði Sæplasts, enda er þar fyrir hendi laust rými. Með því að setja niður framleiðsluna á Dalvík gefst okkur einnig tækifæri til þess að þjónusta betur en áður stóra viðskiptavini okkar á Norðurlandi og afla nýrra viðskiptavina. Bæði Tempra og Sæplast hafa lengi framleitt umbúðir fyrir sjávarútveginn og það fer því vel á því að framleiðsla beggja fyrirtækja verði undir einu þaki á Dalvík,” segir Páll.
Daði Valdimarsson, framkvæmdastjóri Sæplasts Dalvík ehf., segir að húsnæði þar sem áður var trollkúluframleiðsla Sæplasts, en henni var hætt fyrir nokkrum vikum, verði nýtt fyrir framleiðslu á frauðplastkössunum. Einn til tveir starfsmenn annast framleiðsluna, en viðhald og afgreiðsla verður samnýtt með annarri starfsemi Sæplasts.
“Þessi nýja framleiðsla hentar vel við hliðina á þeirri framleiðslu sem fyrir er hjá okkur á Dalvík. Við erum að fara í samstarf við Tempru, þar sem er fyrir hendi mikil þekking á framleiðslu og sölu þessarar vöru. Ég tel því vera allar forsendur til mjög hagkvæmrar framleiðslu, til hagsbóta fyrir viðskiptavini. Það er líka engin spurning í mínum huga að staðsetning slíkrar framleiðslu hér á Dalvík er mjög hagkvæm, enda er öflugur sjávarútvegur rekinn í Eyjafirði og nágrannabyggðum. Hér verður því miðstöð framleiðslu á frauðplastkössum, sem fyrst og fremst eru notaðir fyrir útflutning á ferskum fiski, fyrir allt Norðurland,” segir Daði Valdimarsson.
www.akureyri.net
Höf.