Almennt | 17. maí 2006 - kl. 08:29
Fyrsti ársfundur Vaxtarsamnings Eyjafjarðar: Fjölmörg verkefni komin af stað Fréttatilkynning frá
Vaxtarsamningi Eyjafjarðar
12. maí 2006
Fyrsti ársfundur Vaxtarsamnings Eyjafjarðar:
Fjölmörg verkefni komin af stað
Fyrsti ársfundur Vaxtarsamnings Eyjafjarðar var haldinn á Akureyri síðastliðinn fimmtudag. Vaxtarsamningur Eyjafjarðar er samstarfsverkefni opinberra og einkaaðila um uppbyggingu atvinnulífs við Eyjafjörð og hófst árið 2004. Hann er fyrsti samningur þessarar gerðar hér á landi og sagði Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í ávarpi sínu á fundinum í gær að hún vænti mikils af verkefninu en samningurinn gildir til ársloka 2007.
Skilgreindir eru fjórir klasar innan Vaxtarsamningsins, þ.e. heilsuklasi, ferðaþjónustuklasi, mennta- og rannsóknaklasi og matvælaklasi. Forystuhópur er yfir hverjum klasa og verkefnisstjóri sem stýra starfinu í einstökum verkefnum.
Fjölmörg skilgreind verkefni eru þegar komin í vinnslu í klösunum. Svo dæmi sé tekið var sameiginleg þátttaka eyfirskra matvælaframleiðenda á sýningunni Matur 2006 afrakstur samstarfs innan matvælaklasa. Sömuleiðis er í ferðaþjónstuklasa m.a. unnið að aukinni fagmenntun í greininni á Norðurlandi, samstarfi skíðasvæða og safna og fleiru. Mennta- og rannsóknaklasi kom að undirbúningi hugmyndar um vísindagarða við Háskólann á Akureyri og undirbúningi orkuskóla sem yrði sérhæfður í kennslu fræða um endurnýjanlega orkugjafa. Orkuskóli mun væntanlega taka til starfa á Akureyri í haust.
Innan heilsuklasa er m.a. unnið að átaksverkefninu “Heilsudagar á Akureyri” og nú í sumarbyrjun eru væntanlegar niðurstöður vinnuhóps sem hefur skoðað hvernig unnt er að ná til Eyjafjarðarsvæðisins auknum verkefnum á endurhæfingarsviðinu.
Hér eru aðeins tekin fáein dæmi um verkefni sem unnið er að innan Vaxtarsamnings Eyjafjarðar en þau og fjölmörg önnur voru kynnt á ársfundinum í gær.
Aðilar aðVaxtarsamningi Eyjafjarðar eru iðnaðarráðuneytið, Akureyrarbær, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar fyrir hönd sveitarfélaga í Eyjafirði, Byggðastofnun, Háskólinn á Akureyri, Iðntæknistofnun Íslands – Impra Nýsköpunarmiðstöð, Kaupfélag Eyjafirðinga, Skrifstofa Atvinnulífsins á Norðurlandi, Stéttarfélög í Eyjafirði og Útflutningsráð Íslands.
Bein fjárframlög til samningsins nema 142,5 milljónum króna, auk 35 milljóna króna framlaga í formi sérfræðivinnu. Höf. |