3.1 Lýsing á fjar- og gagnavinnslu

3.1.2 Ný fjarskiptalög

Byltingin í fjarskiptum er talin vera eitt það mikilvægasta sem er að gerast í atvinnulífi þjóða heims um þessar mundir. Þess vegna er mikilvægt að setja skynsamlegan lagaramma um þennan þátt atvinnulífsins.

Breytingar á tækni, þjónustu og alþjóðlegu lagaumhverfi fjarskipta ásamt auknum umsvifum fjarskipta- og upplýsingatækni og nýjum skuldbindingum samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, hafa gert endurskoðun fjarskiptalaga nauðsynlega. Þó eru gildandi fjarskiptalög varla orðin fjögurra ára gömul.

Samgönguráðherra hefur lagt fram frumvarp til nýrra fjarskiptalaga á Alþingi. Með nýjum fjarskiptalögum er alþjónusta endurskilgreind í 13. grein laganna samkvæmt eftirfarandi:

"Til alþjónustu teljast m.a. talsímaþjónusta, þjónusta við fatlaða eða notendur með sérstakar þjóðfélagsþarfir og gagnaflutningsþjónusta með 128 Kb/s flutningsgetu sem notendur tengjast um heimtaugar almenna talsímanetsins".

Í athugasemdum með frumvarpinu segir að það hvíli á tveimur meginstoðum. Annars vegar sé í því að finna ákvæði sem eigi að stuðla að aukinni samkeppni og tryggja aðgang allra landsmanna að ákveðinni lágmarksþjónustu, svokallaðri alþjónustu, en í frumvarpinu er í fyrsta skipti lagt til að gagnaflutningsþjónusta verði skilgreind sem alþjónusta. Hér séu nýmæli á ferð sem geti haft mikla þýðingu fyrir búsetu, atvinnuuppbyggingu og lífskjör í landinu. Hins vegar sé með frumvarpinu verið að laga íslenska löggjöf að þeim tilskipunum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu um fjarskiptamál.

"Mikil umskipti hafa orðið í fjarskiptamálum í heiminum á undanförnum árum, bæði í tækni, þjónustu og lagasetningu. Segja má að þróun síðustu ára hafi gerbreytt hefðbundnum fjarskiptum, þráðlaus samskipti setja mark sitt á talsamband, gjald fyrir millilandasamtöl fer lækkandi og samruni fjarskipta, fjölmiðlunar og einkatölva hefur byltingarkennd áhrif. Samskipti framtíðarinnar munu að miklu leyti byggjast á gagnaflutningum, svo sem fjarvinnslu, fjarmenntun, fjarlækningum, heimabönkum og gagnvirku sjónvarpi," segir meðal annars í frumvarpinu. "Fjarskipta- og upplýsingamál skipta Íslendinga höfuðmáli. Markmiðið er því að Ísland verði í fremstu röð tæknivæddra ríkja með ódýra og góða fjarskiptaþjónustu. Alþingi og stjórnvöld bera ábyrgð á því að tryggja réttlátar leikreglur í fjarskiptamálum, leikreglur sem stuðlað geta að aukinni velferð og hagsæld í þjóðfélaginu. Leikreglur fjarskiptanna eru um margt frábrugðnar leikreglum annarrar atvinnustarfsemi vegna þeirrar sérstöðu fjarskipta í Evrópu að þau voru fyrst fyrir fáum árum leyst undan einkaréttarvernd og því er ekki talið tímabært að fella ákveðna þætti fjarskiptaþjónustu, svo sem samtengingu, reglur um opinn aðgang að netum og alþjónustu undir almenna samkeppnislöggjöf. Má nefna tvö dæmi því til sönnunar. Mikilvægi þess að notendur geti auðveldlega haft samskipti á milli fjarskiptaneta hefur haft áhrif við setningu reglna sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu hér að lútandi. Annað sérkenni fjarskipta er að ríkisreknar símastjórnir áttu og ráku eina fullkomna fjarskiptanetið sem til var þar til einkaréttur var afnuminn með lögum. Hinar sérstöku reglur sem um fjarskipti gilda í Evrópu eiga að stuðla að aukinni samkeppni með því að gera nýjum fyrirtækjum kleift að hefja starfsemi á markaðnum," segir einnig í frumvarpinu.

Frumvarpinu er ætlað að örva samkeppni á þessu sviði og jafnframt að tryggja aðgang allra landsmanna að gagnaflutningsþjónustu, auk talsímaþjónustu, sem kveðið er á um í gildandi lögum.

 


Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar - Strandgötu 29 - 600 Akureyri
Sími 4612740 - Fax 4612729 - Netfang: - Veffang: afe.is