3.2.3
Ljósleiðarar í aðgangsnetum
Notkun
ljósleiðara í aðgangsnetum er mjög vaxandi
enda eru þeir afkastamesti burðarmiðill sem völ
er á. Kostnaður við lagningu ljósleiðaraneta
er nærri allur fólginn í jarðframkvæmdum.
Ljósleiðararnir sjálfir eru orðnir afar ódýrir
en ennþá er endabúnaður ljósleiðara
mun dýrari en endabúnaður fyrir rafmerki. Aðgangsnet
með ljósleiðara eru flokkuð eftir því
hve langt ljósleiðarinn nær í átt
til notandans. Öflugasta aðgangsnetið er FTTH (Fibre
to the Home), þegar ljósleiðarinn er lagður
alla leið heim til notanda. Með slíku neti er bandvíddin
nærri ótakmörkuð, hún ræðst
eingöngu af þeim búnaði sem tengdur er endum
ljósleiðarans. FTTB (Fibre to the Building) er þegar
ljósleiðari er lagður í fjölbýlishús
eða stór fyrirtæki (FTTO). Þetta fyrirkomulag
er þegar notað hér á landi í breiðbandi
Landssímans. Endabúnaðurinn getur t.d. verið
afkastamikil ATM skiptistöð sem leyfir bandbreiðan
aðgang inn á ljósleiðarann. FTTC (Fibre to
the Curb) er það fyrirkomulag sem breiðbandið
byggir á í stórum dráttum. Ljósleiðari
er lagður frá símstöð í götuskápa
sem eru oftast í fárra tuga metra fjarlægð
frá heimilum eða fyrirtækjum. Frá götuskápunum
liggja bæði kóax og UTP (Unshielded Twisted Pair)
strengir sem notaðir eru til tenginga inn í hús.
Með svonefndri VDSL tækni (Very High speed Digital Subscriber
Line) er hægt að senda allt að 52 Mb/s heim til notenda
um UTP strengi. Kóax strengurinn er nú notaður
til dreifingar sjónvarpsefnis og getur hann borið hundruð
sjónvarpsrása.
|