3.3.1
Tengingar heimila og smærri fyrirtækja
Mótöld
Sú leið sem er mest þekkt og langstærstur
hluti einstaklinga notar eru hefðbundin mótöld,
eða módem. Þróun þessarar tækni
er sennilega búin að ná sínu hámarki,
vegna samkeppni frá öðrum lausnum eins ISDN og ADSL,
og hefur hámarksflutningsgeta ekki farið upp fyrir 56
kb/s til notandans (lægri til netveitunnar). Mótaldstenging
getur verið óþjál í notkun ef það
á að stunda mikla gagnaflutninga vegna vinnu, og má
segja að ISDN tenging sé "lágmarksskilyrði"
fyrir gagnaflutninga. Þetta er þó algjörlega
háð þörf sendanda og viðtakanda m.t.t.
tíma og eðli gagna.
ISDN
Þessi tækni hefur verið í boði hjá
Landsímanum nú í nokkurn tíma en önnur
tækni er að koma inn á markaðinn. Samkvæmt
Landssímanum eru um 8% símnotenda nú með
ISDN tengingu, þar af um 75% á höfuðborgarsvæðinu.*
Þessi tækni býður upp á samskiptahraða
sem er frá 64 og allt að 128 kbs í báðar
áttir. Í ISDN kerfinu er 1kbs = 1.000 b/s en 1.024
b/s ella. Hámarks fjarlægð notanda frá símstöð
er um 5,5 km, nema sérstakar ráðstafanir séu
gerðar, t.a.m. með notkun magnara. Slíkar ráðstafanir
auka fjarlægðina í allt að 20 km. frá
símstöð. Samkvæmt athugun Landsímans
eru nú um 2-3000 heimili í dreifðustu byggðum
landsins utan svæða þar sem hægt er að
bjóða upp á ISDN-tengingu. Landssíminn
ætlar sér að hraða ISDN-væðingu þessara
svæða og áætlar að það muni
taka um þrjú ár að ljúka verkinu.
Með ISDN 128 kb/s tengingu er búið að skapa góða
gagnaflutningsleið. Einnig getur svona samband virkað sem
staðarnetstenging, þ.e. mögulegt er að tengja
tölvukerfi saman, og jafnframt er mögulegt að tengja
saman símstöðvar.
Kostnaður
við notkun á ISDN er sá sami og á venjulegum
mótaldslínum og er þessi kostnaður sá
sami og í talsímakerfinu, þ.e. gjaldið er
ekki tengt magni, því eingöngu er greitt fyrir
þann tíma sem tækið er í sambandi
við símkerfið. Stofnkostnaður er þó
meiri sem og fast símagjald.
ADSL
DSL er tækni sem þróuð var í byrjun
tíunda áratugarins til þess að nýta
fyrirliggjandi símalínur til háhraða fjarskipta.
Þekktasta afbrigði DSL er ADSL sem stendur fyrir "Asymmetric
Digital Subscriber Line". DSL tæknin er ein merkasta
nýjung á sviði aðgangsneta sem komið hefur
fram um árabil enda gerir hún kleift að nýta
þá geysilegu fjárfestingu sem liggur í
koparstrengjum víða um heim. Í boði eru þrír
mismunandi hraðaflokka með tengihraða frá 256
kb/s upp í 1,5 Mb/s. Með þessu móti er þeim
þjónað sem helst nota sambandið til að
tengjast Inernetinu og jafnframt þeim sem þurfa t.d.
hraðvirkt samband milli heimilis síns og vinnustaðar.
Þar með eru komin skilyrði til fjarvinnu þar
sem starfsmaður finnur lítinn mun á tengihraða
heima hjá sér eða á vinnustað.
ADSL er nýjung í tengingu inn á Internetið
eða tölvunet fyrirtækja sem nýtir hefðbundnar
símalínur notenda eða ISDN, en með ákveðinni
tækni er hægt að fá fram burðargetu sem
er mun meiri en áður hefur þekkst. ADSL byggir
á fastri tengingu inn á svokallað ATM-net Landssímans.
Þessi þjónusta er aðallega hugsuð fyrir
þá sem þurfa hraða og ódýra
fasttengingu við netið, t.a.m. heimili og starfsmenn í
fjarvinnu sem tengjast staðarneti fyrirtækja. ADSL býður
upp á svipaða notkunarmöguleika og ISDN, en með
margfalt meiri hraða. Í framtíðinni myndar
ADSL möguleika á svokallaðri "on demand"
þjónustu sem þýðir að hægt
er að panta í gegnum Internet ýmsa þjónustu
sem byggir á notkun flókins myndefnis, myndbönd
o.þ.h. Megin kostur tækninnar þar fyrir utan er
að notandinn er sítengdur en getur notað símann
óháð tímalengd sambandsins. Þær
takmarkanir sem helst má nefna varðandi ADSL eru m.a.
fjarlægð notanda frá símstöð sem
er 5 km, og meðallengd heimtauga sem er um 3 km. Mesti hraði,
sem er um 8 Mbs, næst aðeins ef heimtaug er nokkur hunduð
metrar frá símstöð. Vegna hættu á
truflunum er talið að ekki megi nota nema 30-70% heimtauga
í sama kapli.
Miðað við óbreyttar forsendur, munu ekki allir
notendur geta notið aðgangs að slíkum línum
og heimili í dreifðustu byggðum landsins munu flest,
vegna fjarlægðar frá símstöð, ekki
geta fengið slíka tengingu. Dreifikerfi ADSL nær
nú til flestra hverfa höfuðborgarinnar, en Landssíminn
gerir ráð fyrir að á næstunni verði
þessi tækni í boði á Akureyri og Ísafirði.
Því er ADSL enn sem komið er ekki valkostur fyrir
fjarvinnslu á landsbyggðinni og býr landsbyggðarfólk
þ.a.l. ekki við sömu skilyrði hvað þetta
varðar. Lítil reynsla er komin af ADSL á höfuðborgarsvæðinu
en ýmsir agnúar hafa komið í ljós
og hefur tengingin átt það til að "detta
niður".
VDSL
Nýjasta afbrigði DSL tækninnar nefnist VDSL og
hefur hámarksbandbreidd 52 Mb/s yfir mjög stuttar vegalengdir.
Þessi lausn er enn á tilraunastigi og ekki ljóst
hver takmörk hennar verða. Nokkuð víst þykir
að VDSL sé endapunktur í þróun tækni
sem nýtir koparheimtaug til almennra notenda. Þessi
tækni býður upp á sömu notkunarmöguleika
og ADSL, en með enn meiri hraða.
Breiðbandið
Aðferðirnar sem lýst er hér að ofan, þ.e.
notkun mótalda, ISDN og ADSL, gera ráð fyrir að
"lína" sé á milli netveitu og notanda
og enginn annar að nota hana á sama tíma. Til
eru annars konar aðferðir sem byggja á því
að margir nýti sömu "línuna". Má
sem dæmi nefna gagnaflutning á kapalkerfum og örbylgjuloftnet.
Jafnframt samnýta margir sömu bandbreiddina sem getur
verið um eða yfir 30 Mb/s. Á liðnum árum
hefur verið unnið að lagningu breiðbands inn á
heimilin í landinu. Gert er ráð fyrir að innan
5-7 ára verði breiðbandið komið inn á
80% heimila í landinu. Breiðbandið hefur til þessa
fyrst og fremst verið notað til dreifingar á sjónvarps-
og útvarpsefni en einnig hefur verið rædd Internetnotkun
og gagnaflutning til lengri tíma.
Breiðbandið
byggir á ljósleiðurum sem lagðir eru í
jörð. Þetta er tiltölulega seinvirk aðferð
til að byggja upp fjarskiptakerfi en hún er á
hinn bóginn nokkuð örugg og tiltölulega varanleg.
Lagning ljósleiðara er aðeins ein þeirra leiða
sem farnar eru við að byggja upp breiðbandskerfi og
sífellt eru til skoðunar aðrir möguleikar, enda
eru menn ekki bundnir við tæknilausnina sjálfa
við að leggja breiðband heldur þarf að horfa
til þeirrar þjónustu sem veita á.
Halldór Kristjánsson setur fram þá skoðun
í skýrslu sinni "Stafrænt Ísland"
að breiðbandið muni ekki skipta sköpum á
næstu árum varðandi aðgang að bandbreidd
til tölvusamskipta.
Fjarskipti
um raflínur
Nokkuð hefur verið horft til þess að nýta
lágspennudreifikerfi raforkuveitna til fjarskipta. Dótturfyrirtæki
Orkuveitu Reykjavíkur, Lína.Net, kynnti áætlanir
um að bjóða flutning tölvuboða um rafstrengi
snemma árs 1999. Stuttu seinna var samstarfsfyrirtæki
þeirra, Nor.Web, lagt niður þar sem stjórnendur
þess töldu þessa tækni ekki nógu þróaða
og töldu ekki markað fyrir hana. Nýlega gerði
Lína.Net samning við svissneska fyrirtækið
Ascom og Siemens um þróun lausnar af þessu tagi.
Margir hafa efasemdir um samkeppnishæfni þessarar tækni.
|