3.3.2
Tengingar fyrirtækja og stærri notenda
Smærri
fyrirtæki og einstaklingar geta nýtt sér samskonar
leiðir til að tengjast Internetinu en stærri fyrirtæki
hafa þörf fyrir meiri bandbreidd og öryggi en þeir
möguleikar sem getið er hér að ofan bjóða
upp á. Fyrirtækjum stendur til boða bandbreidd
sem er allt að 155 (620) Mb/s á viðráðanlegu
verði.
Leigulínur
Fyrirtæki nýta sér gjarnan fastlínutengingar
um s.k. leigulínur til þess að fá bandbreidd
sem er allt að 2 Mb/s á leigulínum. Með leigulínum
myndast fyrst og fremst möguleiki á tengingu frá
a til b og er hægt að flytja nánast hvað sem
er yfir leigulínur ásamt því að samtengja
símstöðvar og tölvukerfi. Þar fyrir utan
eru leigulínur notaðar sem tenging fyrirtækja inn
í almenna símkerfið.
Verð
á þjónustu af þessu tagi á milli
byggðarlaga hefur lækkað og kostnaður við
leigulínur innan bæja hafa lækkað verulega
ef aðili er að tengja saman tvo staði innan sama bæjar.
Einnig er nú minni kostnaður við að auka bandbreidd
en áður var, þar sem verðið tekur nú
minna mið af flutningsgetu. Stofnkostnaður og rekstrarkostnaður
miðast við fjarlægðir og hækkar eftir því
sem að fjarlægðin er meiri. Þetta hefur m.a.
skapað þann ójöfnuð á milli höfuðborgarsvæðis
og landsbyggðarinnar hvað varðar rekstrarkostnað
fyrirtækja sem þurfa á tækninni að
halda. Nánar er vikið að þessu síðar
í skýrslunni.
Helsti
kosturinn við þessa tengingu er sá að lítil
hætta er á að utanaðkomandi aðstæður
eða álag frá öðrum séu að
trufla sambandið.
Háhraðanet
Háhraðanetið er kerfi sérstaklega hannað
til tölvusamskipta og á fátt sameiginlegt með
leigulínum. Meginmunurinn á þeirri umferð
sem Internetþjónustur flytja og háhraðanetið
er sá að netþjónustur flytja aðeins
einn samskiptastaðal, en háhraðanetið flytur
marga, sk. fjölstaðlasamskipti. Háhraðanetið
er samnýtingarnet og byggir á tveimur þáttum,
tengistöðvum (hnútum) í símstöðvum
víða um land og leigulínum sem tengja hnútana
saman. Háhraðanetið er sjálfstæð
virðisaukandi starfsemi innan Landssímans og tekur á
leigu línur af grunnneti fyrirtækisins. Í háhraðanetinu
er t.d. 2 Mb/s leigulína milli Reykjavíkur og hnúts
á Akureyri. Háhraðanetið er fyrst og fremst
notað til að samtengja tölvukerfi og til tenginga inn
á Internetið.
Frame
Relay
Frame Relay, sem Landssíminn býður upp á,
er gagnaflutningsþjónusta sem byggir á Frame
Relay stöðlum og tryggir ákveðna bandbreidd
sem í dag er frá því að vera 64 kb/s
upp í allt að 2 Mb/s. Gjaldið stýrist af því
hversu hátt hlutfall af bandbreiddinni er tryggt. Frame Relay-þjónustan
hentar til samtengingar staðarneta og einkasímstöðva
og býður upp á flutning tals, mynda og gagna um
sömu flutningsleið. Frame Relay veitir hágæða
fjarskiptaþjónustu yfir ATM-netið. Búnaður
viðskiptavina þjónustunnar tengist Frame Relay
netinu með fasttengdum leigulínum og milli tveggja staða
er sett upp ein eða fleiri fastar sýndarrásir
(PVC). Fyrir hverja sýndarrás er skilgreint hve mikið
gagnamagn getur farið um hana á hverjum tíma (CIR
gildi). Viðskiptavinir geta sett meiri umferð á sambandið
en tilgreint er með CIR-gildi og kemst hún á endastað
að því tilskyldu að nægileg flutningsgeta
sé til staðar í Frame relay netinu. Umferð
sem er umfram CIR gildið er merkt sérstaklega og Frame
Relay netið getur hafnað henni.
Frame
Relay er fyrst og fremst notað til að tengja saman tölvukerfi
og símstöðvar og fyrir þjónustutengingar,
svo sem tengingar inn á Internetið og fyrir ADSL þjónustu.
ATM
(Asyhncronous Transfer Mode)
Þar sem þörf er á meiri hraða en 2 Mb/s
sem Frame Relay býður upp á, stendur ATM tenging
til boða. ATM fjarskiptastaðallinn nýtir þann
mikla hraða sem ljósleiðari felur í sér
og möguleiki er á tengihraða allt upp í 155
Mb/s. ATM netið er í raun burðarnet milli staða,
til að tengjast því þarf að hafa ADSL,
FrameRelay, eða ATM tengingar til notandans.
ATM
gagnaflutningsþjónusta hefur frá upphafi verið
þróuð til að geta borið alla þekkta
fjarskiptaþjónustu, tal, myndir og gögn. ATM er
pakkaskiptur fjarskiptamáti þar sem allir pakkar eru
jafn langir og eru kallaðir sellur. Í ATM eru settar
upp sýndarrásir (Virtual Channel, VC) milli notenda
og virðist notendum þeir því njóta
kosta rásaskiptra fjarskipta. Miðað við aðra
fjarskiptahætti, svo sem X-25, er ATM nokkuð einfaldur
háttur þar sem ýmsar aðgerðir (t.d.
villu- og flæðismeðhöndlun) hafa verið fjarlægðar.
Í staðinn verður meðhöndlun gagnanna í
fjarskiptanetunum mun einfaldari og hraðari. Notendur ATM nets
geta tengst því með mismunandi bithraða frá
2 til 155 Mb/s.
ATM
leyfir tengingu á ljósleiðara milli aðila,
sem er allt að 2, 10, 100 eða 155 Mb/s. Til viðbótar
við höfuðborgarsvæðið eru nú tengipunktar
inn á ATM-netið á ýmsum stöðum
um landið. Í dag eru tengipunktar á Akureyri,
Ísafirði, Patreksfirði, Stykkishólmi, Borgarnesi,
Akranesi, Siglufirði, Húsavík, Sauðárkróki,
Blönduósi, Raufarhöfn, Egilsstöðum, Neskaupstað,
Reyðarfirði, Selfossi, Keflavík, Höfn í
Hornafirði, Vestmannaeyjum og Hvolsvelli. Stefnt er að frekari
fjölgun og er takmarkið að 90% fyrirtækja á
landinu verði í innan við þriggja kílómetra
fjarlægð frá skiptistöð. Í dag
er boðið upp á hámark 2Mb/s tengingar milli
þessara tengipunkta.
ATM
opnar aðgang að Internetþjónustu, tengingum
til útlanda í gegnum alheimsnet Equant, tengingum
út á land, háhraðatengingum innan höfuðborgarsvæðisins
og ADSL fjarvinnulausn auk annarra þjónustuflokka sem
eru og verða á netinu í framtíðinni.
Með ATM er mögulegt að samtengjast öllum þeim
aðilum sem eru/verða á netinu. Í þessu
sambandi þarf einungis að setja upp fyrrnefnda sýndarrás
á milli aðila.
Þegar
fyrirtæki tengjast ATM netinu er hægt að tengjast
öðrum sem komnir eru á netið í gegnum
s.k. sýndarrás á milli fyrirtækjanna.
Mánaðargjöld eru mismunandi eftir því
hversu há bandvídd er tryggð.
Mynd
3.5 Dæmi um ATM tengingu á milli fyrirtækja.
ATM
er aðallega notað til að samtengja tölvukerfi og
símstöðvar og getur flutt nánast hvað
sem er. ATM er, eins og áður hefur komið fram, burðarnet
fyrir ADSL. Landssíminn sér ATM fyrir sér sem
sitt aðalnet í framtíðinni.
Örbylgjunet
Mögulegt er fyrir fyrirtæki að tengjast sín
á milli með því að setja upp örbylgjusenda
og miðast það við að "sjónlína"
sé á milli loftneta og er háð sendistyrk.
Kostnaður við örbylgjusenda hefur lækkað
að undanförnu og nýta æ fleiri sér
þennan möguleika. Á höfuðborgarsvæðinu
eru nokkur fyrirtæki sem bjóða aðgang að
dreifinetum sem nota örbylgjusambönd.
Gervihnettir
Hér á landi mun vera einn aðili sem hefur 2 Mb/s
tengingu um gervihnött. Tengingar af þessari gerð
gætu verið framtíðarkostur en yfirleitt eru
þær einátta, þ.e. til notandans, en hann
sendir gögn oftast frá sér um jarðbundnari
leiðir.
|