4.2 Greining og mat á auðlinda- og hæfnisþáttum í Eyjafirði

4.2.2 Stöðumat á auðlinda- og hæfnisþáttum Eyjafjarðar með matslista

Alls voru tekin 18 ítarleg viðtöl við aðila innan allra sveitarfélaga á starfssvæði AFE í Eyjafirði. Tilgangurinn var, eins og komið hefur fram, til að framkvæma mat á núverandi stöðu auðlinda- og hæfnisþátta í fjar- og gagnavinnslu samkvæmt sýn þeirra aðila sem taldir eru þekkja til innan sveitarfélaga á starfssvæði AFE í Eyjafirði.

Eins og kom fram í 1. kafla, voru auðlinda- og hæfnisþættir metnir á mælikvarðanum -2 til +2, þar sem -2 þýðir mjög slæmt, -1 slæmt, 0 viðunandi, +1 gott og +2 mjög gott. Matið var framkvæmt þannig að skýrsluhöfundar hittu hvern viðmælenda í ítarlegu viðtölunum og ræddu um hvern þátt og urðu viðmælendur að færa rök fyrir sínu mati, þ.e. hvaða tölulegt gildi þeir gáfu auðlinda- og hæfnisþáttum.

Úrvinnslu var þannig háttað að reiknað var út meðaltal og staðalfrávik fyrir hvert sveitarfélag sem og svæðið í heild. Gerð var tölfræðileg úrvinnsla (töflur og myndir) fyrir svæðið í heild.
Í þessum kafla eru niðurstöður stöðumats samkvæmt matslista greindar eftir auðlinda- og hæfnisflokkum annars vegar og auðlinda- og hæfnisþáttum hins vegar, þar sem fróðlegt er að sjá stöðu flokka jafnt sem stöðu þátta.

Í töflu 4.2, á næstu síðu, sjást niðurstöður úr mati á auðlinda- og hæfnisþáttum Eyjafjarðarsvæðisins, þar sem teknar eru saman niðurstöður úr sérhverjum auðlinda- og hæfnisflokki fyrir svæðið í heild.

Auðlindaflokkur
Meðaltal
Staðalfrávik
ÞEKKING
0,3
0,3
TÆKNIBÚNAÐUR OG ÞJÓNUSTA
0,9
0,6
REYNSLA AF NÚV./FYRRV. VERKEFNUM
0,4
0,5
AÐSTAÐA
1,5
0,6
TÆKNILEGAR SAMGÖNGUR
-0,3
0,5
ÞJÓNUSTA OG SAMFÉLAGIÐ
1,4
0,5
SAMGÖNGUR
1,5
0,7
SKÓLAR, RANNSÓKNIR OG ÞRÓUN
1,3
0,7
FJÁRHAGSLEG STAÐA
0,6
0,6
ATVINNULÍF OG VINNUAFL
0,9
0,6
ÁHRIF VEÐURFARS
1,2
0,8
BYGGÐAMÁL
0,3
0,8

Tafla 4.2 Niðurstaða mats á flokkum yfir auðlinda- og hæfnisþætti.

Ekki er hægt að greina miklar sveiflur á niðurstöðum auðlinda- og hæfnisflokka á milli sveitarfélaga eins og staðalfrávikið í töflu 4.2 gefur vitneskju um. Stærsta sveiflan er í flokknum "Byggðamál" sem sveiflast frá því að vera mjög slæm í mjög góð (-1.33 til +2.00). Athyglisvert er að hvergi á svæðinu er þekking talin vera góð, en reyndar ekki heldur slæm.

Eins og lesa má úr niðurstöðum stöðumatsins (sjá mynd á næstu síðu) eru ekki margir auðlinda- og hæfnisþættir sem mælast neikvæðir, þ.e. slæmir. Því ber að sjálfsögðu að fagna en samt sem áður verður að draga ályktanir út frá þessum niðurstöðum með varúð. Staða einstakra auðlinda- og hæfnisþátta- eða flokka getur verið mismunandi á milli sveitarfélaga innan Eyjafjarðar og þar fyrir utan sýnist sitt hverjum um sína heimabyggð. Hafa ber einnig í huga að mismunandi mikil þekking er á möguleikum fjar- og gagnavinnslu innan sveitarfélaga og því var á vissan hátt erfitt fyrir svarendur að meta þættina. Ennfremur gera sveitarfélögin eflaust mismunandi kröfur til auðlinda- og hæfnisþátta og meta þ.a.l. út frá sinni kröfu. Þetta eru skekkjuþættir sem vitað var um áður en mælingin var framkvæmd.

Þrátt fyrir þetta gefur niðurstaða stöðumatsins ákveðna vísbendingu um stöðu mála innan sveitarfélaga í Eyjafirði, en bent er á að rannsóknin sem hér var framkvæmd var ekki gerð til að fá nákvæma sýn á stöðu mála, heldur fyrst og fremst vísbendingar og forsendur til að færa rök fyrir því hvers konar verkefni á sviði fjar- og gagnavinnslu hægt er að vinna á svæðinu, miðað við núverandi stöðu. Í kafla 4.4. er gerð ítarlegri grein fyrir hvernig þessar niðurstöður er nýttar til að túlka núverandi stöðu auðlinda- og hæfnisþátta, með tillliti til fjar- og gagnavinnslu í Eyjafirði.

Mynd 4.3 Niðurstaða mats á auðlinda- og hæfnisþáttum fyrir svæðið í heild.

"Samgöngur" (flug, vegasamgöngur, skip) er sá flokkur sem kemur sterkastur út úr stöðumati samkvæmt matslista með meðaltalið +1,5, sem er nálægt því að vera í mjög góðu lagi. Miðað við "sterkustu" flokkana úr stöðumatinu má almennt álykta sem svo að á svæðinu sé gott að búa með góðum og greiðum samgöngum, góðu veðurfari, góðri húsnæðisaðstöðu og góðu skóla-, rannsókna- og þróunarumhverfi. Þetta er þó ítarlegar og betur túlkað í kafla 4.4.

Flokkurinn "Tæknilegar samgöngur" kemur veikastur út með meðaltalið -0,3, sem er á milli þess að vera viðunandi og slæmt. Þetta má trúlega skýra að hluta með því að það var mat viðmælenda að verðlagning á þessari þjónustu drægi úr og skyggði á þennan þátt. Aðrar "veikar" hliðar á svæðinu m.t.t. fjar- og gagnavinnslu, sem þó mælast viðunandi, eru þekkingarleg staða, íbúaþróun og önnur byggðamál, verkefnareynsla og fjárhagsleg staða sveitarfélaga og fyrirtækja.

"Gagnaflutningsgeta" er mikilvægasti auðlinda- og hæfnisþátturinn og sker sig nokkuð úr. Það er greinilegt samkvæmt þessu að mikilvægustu auðlinda- og hæfnisþættirnir eru þættir sem tengjast þekkingu, tæknibúnaði og/eða tækniþjónustu og tæknilegum samgöngum, þ.e. miðað við niðurstöðu mikilvægisgreiningu.


Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar - Strandgötu 29 - 600 Akureyri
Sími 4612740 - Fax 4612729 - Netfang: - Veffang: afe.is