4.3 Staða auðlinda- og hæfnisþátta Eyjafjarðar í fjar- og gagnavinnslu

4.3.3 Auðlindabil Eyjafjarðar í fjar- og gagnavinnslu

Með auðlindabili er átt við bilið milli raunverulegrar stöðu Eyjafjarðar og þeirrar stöðu sem hægt er að kalla æskilega stöðu eða þá stöðu sem til þarf til að geta hagnýtt auðlindir í atvinnuuppbyggingu í fjar- og gagnavinnslu.

Varðandi fjar- og gagnavinnslu sýnir auðlindabilið, ásamt SVÓT-greiningu, hvaða auðlinda- og hæfnisþætti þarf að bæta, hverja þarf að viðhalda o.s.frv., til að Eyjafjarðarsvæðið verði í stakk búið að geta byggt upp atvinnutækifæri með gagnavinnslutækni.

Því miður liggja ekki fyrir samanburðarhæfar upplýsingar fyrir önnur landssvæði og því erfitt að segja hvort staða Eyjafjarðarsvæðisins sé slæm eða góð miðað við önnur svæði þó svo að hún sé álitin veik úr SVÓT-greiningunni. Þess vegna ber að varast að segja að Eyjafjörður sé ekki samkeppnisfær miðað við önnur svæði og á móti er erfitt að segja að Eyjafjörður sé samkeppnisfærari en önnur svæði.

Ef niðurstöður mats á auðlindum og hæfni Eyjafjarðarsvæðisins eru skoðaðar með hliðsjón af auðlinda- og hæfnisflokkum, kemur ýmislegt athyglisvert í ljós. Veikleikar svæðisins eru í flokkum sem vega mikið, t.d. hvað varðar þekkingu og tæknilegar samgöngur. Það er augljóst að ef Eyjafjarðarsvæðið vill stefna að því að nýta sér tækifæri í fjar- og gagnavinnslu þá er lykilatriði að gera úrbætur á þessum þáttum.

Gróft á litið má segja að allir auðlinda- og hæfnisþættir eigi að vera mjög góðir (+2) og þ.a.l. hægt að álykta að neikvætt auðlindabil sé til staðar ef þættirnir fái aðra útkomu. Það er djúpt í árina tekið að álykta á þennan hátt enda getur verið óhagkvæmt, t.d. kostnaðarlega, að gera auðlinda- og hæfnisþætti fullkomna þar sem "fullkomnunin" nýtist ekki nema að takmörkuðu leyti. Fjórir þættir samkvæmt könnun út frá matslista í viðtölunum, mældust í mjög góðu lagi, þ.e. atvinnuhúsnæði, flugsamgöngur, vegsamgöngur og stöðugleiki vinnuafls. Samtals hafa þessir þættir einungis 3,3% vægi og skipta ekki höfuðmáli hvað varðar fjar- og gagnavinnslu.

Auðlindir
% vægi
Núv.mat 
Æskilegt
Auðlindabil
Gagnaflutningsgeta
16,4
-0,3
2
Slæmt > mjög gott
Tungumál (enska)
10,9
-0,2
1-2
Slæmt/viðun. > gott
Sérfræðiþekking
9,5
0,5
2
Viðunandi > mjög gott
Tölvufræði og upplýsingatækni
8,0
0,5
2
Viðunandi > mjög gott
Síma- og fjarvinnslubúnaður
6,6
0,7
2
Gott > mjög gott
Tölvubúnaður
4,5
1,1
2
Gott > mjög gott
Hugbúnaður
4,3
1,0
2
Gott > mjög gott
Tölvuþjónusta (fyrirtæki)
3,9
0,9
2
Gott > mjög gott
Samskiptabúnaður
3,9
0,9
2
Gott > mjög gott
Atvinnuþróun
3,2
1,4
2
Gott > mjög gott
Fjarkennsla
3,0
0,4
1-2
Viðunandi > gott
Fjölbreytileiki atvinnulífs
2,0
0,3
1
Viðunandi > gott
Tungumál (norðurlandamál)
1,8
-0,4
1-2
Slæmt > gott
Fjarmálavinnsla (nýting verkefna)
1,4
0,4
2
Viðunandi > mjög gott
Íbúaþróun
0,9
0,3
1
Viðunandi > gott
Fjarfundir
0,2
0,0
2
Viðunandi > mjög gott
Samtals vægi/meðaltal:
80,5
0,5
1,7
Viðunandi > mjög gott

Tafla 4.6 Greining á auðlindabili Eyjafjarðar í fjar- og gagnavinnslu.

Til að gera betri grein fyrir auðlindabili í fjar- og gagnavinnslu er í töflu 4.6 teknir saman þeir þættir sem taldir eru skipta miklu máli um það hvort hægt sé að nýta sóknarfæri í fjar- og gagnavinnslu. Tekið er fram að þetta er óháð því hvort þættirnir teljist til styrkleika eða veikleika úr SVÓT-greiningunni. Líta má á þetta sem eins konar lista yfir auðlinda- og hæfnisþætti sem þarfnast úrbóta. Til að átta sig á tölulegum gildum er bent á útskýringar í töflu í 2. kafla skýrslunnar.

Tekið er fram að æskileg staða er huglægt mat sem m.a. er byggt á upplýsingum úr viðtölum við aðila á svæðinu. Óráðlegt er að líta listann sem áfellisdóm yfir auðlindum svæðisins heldur sem ábendingu um hvar þurfi að taka til hendinni til að styrkja hæfni Eyjafjarðar til að taka að sér verkefni á sviði fjar- og gagnavinnslu. Til að svo verði þarf að koma stöðu Eyjafjarðar úr því að vera "viðunandi" í það að vera mjög góða. Orðið "viðunandi" lýsir kannski ekki rétt stöðunni í þessu tilviki en það var notað sem hlutlaus mælikvarði í matslista stöðumatsins.

Þrátt fyrir þessar tölulegu upplýsingar má sjálfsagt enn deila um stöðu einstakra auðlinda- og hæfnisþátta. Hins vegar er augljóst eftir þessa greiningu að mikilvæga þætti á borð við þekkingarleg atriði og tæknileg atriði, þarf nauðsynlega að bæta til að svæðið sé fyllilega í stakk búið til að sinna metnaðarfullum verkefnum á sviði fjar- og gagnavinnslu, sé litið almennt á málið. Vissulega eru til einstaklingar og jafnvel fyrirtæki og stofnanir sem hafa í dag burði til að sinna slíkum verkefnum en ekki ef almennt er litið á núverandi stöðu svæðisins.

Í framhald af þessari niðurstöðu vaknar sú spurning hvað hægt sé að gera til að bæta úr veikum þáttum Eyjafjarðar. Það er viðfangsefni út af fyrir sig að gera grein fyrir því og þarfnast málefnalegrar umræðu og umfjöllunar hjá þeim sem málið varðar. Til að hægt sé að skapa grundvöll fyrir úrbætur þurfa hlutaðeigandi aðilar að mæta opnir og víðsýnir í slíka umræðu því hér er um sameiginlegt hagsmunamál að ræða og enginn tilgangur í því að benda á sökudólga í þessu samhengi.


Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar - Strandgötu 29 - 600 Akureyri
Sími 4612740 - Fax 4612729 - Netfang: - Veffang: afe.is