I. Kafli
Stofnun og hlutverk
1. gr. Nafn og varnarþing
Byggðasamlagið heitir Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar b.s. Heimili þess og varnarþing er á Akureyri. Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar b.s. er stofnað samkvæmt VII. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.
2. gr. Tilgangur
Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar er ætlað að vera leiðandi afl í uppbyggingu atvinnu á Eyjafjarðarsvæðinu með það að markmiði að fjölga atvinnutækifærum á svæðinu og auka fjölbreytileika þeirra starfa sem eru í boði. Þetta skal gert meðal annars með því að samræma stefnu sveitarfélaganna í atvinnumálum, bæta rekstrargrundvöll atvinnulífsins og bæta samkeppnishæfni Eyjafjarðarsvæðisins gagnvart öðrum svæðum innanlands sem utan. Tilgangur Atvinnuþróunarfélagsins er einnig að taka að sér og samræma vinnu er varðar atvinnumál á Eyjafjarðarsvæðinu.
3. gr. Verkefni samlagsins
- Að vera málsvari sveitarfélaganna í atvinnumálum gagnvart utanaðkomandi aðilum, þ.e. ríksstjórn, ríkisstofnunum, embættismönnum og innlendum og erlendum fjárfestum.
- Að veita sveitarfélögunum þjónustu varðandi atvinnu- og kynningarmál og stuðla að aukinni samræmingu í uppbyggingu atvinnu á svæðinu.
- Reka kynningar- og upplýsingaþjónustu til að laða að innlenda og erlenda fjárfesta svo og opinbera aðila til að standa að atvinnurekstri á Eyjafjarðarsvæðinu.
- Auka samstarf fyrirtækja á svæðinu til að efla Eyjafjörð sem eitt atvinnusvæði.
- Efla nýsköpun í atvinnulífinu með ýmsum þróunar-, rannsóknar- og könnunar-verkefnum.
4. gr. Heimildir samlagsins
Samlaginu er heimilt að taka að sér verkefni frá öðrum aðilum er lúta að atvinnu- og þróunarmálum á svæðinu. Samlaginu er ekki ætlað að stunda atvinnurekstur og ráðgjöf sem er í samkeppni við almennan markað.
5. gr. Aðilar að samlaginu
Núverandi aðilar samlagsins eru eftirfarandi sveitarfélög.
- Akureyrarbær
- Dalvíkurbyggð
- Ólafsfjarðarbær
- Eyjafjarðarsveit
- Grýtubakkahreppur
- Svalbarðsstrandarhreppur
- Hríseyjarhreppur
- Hörgárbyggð
- Arnarneshreppur
Vilji fleiri sveitarfélög gerast aðilar að samlaginu er það háð samþykki þeirra sveitarfélaga sem aðild eiga að samlaginu á hverjum tíma.