Aðalfundur Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar bs.
Fyrir árið 2001
Haldinn á Hótel KEA 19. júní kl. 16:00
Formaður stjórnar AFE, Sigurður J. Sigurðsson, bauð fundarmenn velkomna á aðalfundinn og stakk uppá Hákoni Hákonarsyni sem fundarstjóra. Var það samþykkt samhljóma og tók Hákon við fundarstjórn. Gerði hann að tillögu sinni að Benedikt Guðmundsson yrði ritari sem og var samþykkt.
Því næst var gengið til hefðbundinnar dagskrár sem var eftirfarandi:
Dagskrá:
- Skýrsla stjórnarformanns og framkvæmdastjóra
- Ársreikningar kynntir
- Umræður um skýrslu stjórnar og afgreiðslu ársreikninga
- Tillaga stjórnar um breytingu á framlögum sveitarfélaganna fyrir árið 2003
- Skipun stjórnar
- Önnur mál.
Iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, fjallar um stefnu ríkisstjórnar Íslands í byggðamálum fyrir árin 2002-2005 með áherslu á byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð.
Því næst gaf fundarstjóri formanni stjórnar AFE orðið undir fyrsta lið fundarins. Sigurður J. Sigurðsson hóf mál sitt á því að bjóða nýja sveitarstjórnarmenn velkomna til starfa. Því næst fjallaði hann um íbúaþróunina á svæðinu sem honum finnst vera hæg. Hann kom inn á fjölda sveitarfélaga á svæðinu og vankanta þess m.a. við gerð svæðisskipulags. Í máli hans kom fram að Háskólinn á Akureyri væri stærsta byggðamálið sem hefði verið ráðist íá undanförnum árum. Einnig nefndi hann Samherja og uppbyggingu þess fyrirtækis. Því næst kom hann inn á uppbyggingu Frumkvöðlaseturs Norðurlands og þær væntingar sem bundnar væru við þá starfsemi. Þá fór hann nokkrum orðum um afstöðu sveitarstjórnarmanna til starfsemi AFE og þar sýnist sitt hverjum. Gagnrýndi hann að starfsmenn AFE hafi verið látnir bíða í óvissu um framtíð starfseminnar alltof lengi og hvatti hann Akureyrarbæ til þess að hraða endurskoðun sinni á þátttöku sinni í félaginu. Hann fór því næst nokkrum orðum um helstu verkefni félagsins, vinnu við stefnumótun og samskipti félagsins við fjárfestingasjóði á svæðinu. Fram kom í máli hans að enginn takmörk virtust vera á fjármagni til nýsköpunar frekar hitt að skortur væri á góðum hugmyndum. Hann fjallaði um nýsamþykkta byggðaáætlun, markaðssetningu svæðisins, sem hann taldi hafa gengið vel og því næst um árferðið til rekstur fyrirtækja sem hann taldi hafa verið erfitt í mikilli verðbólgu og óhagstæðum ytri skilyrðum. Að lokum bauð hann nýjan starfsmann AFE, Magnús Þór Ásgeirsson, velkominn til starfa um leið og hann þakkaði öðrum starfsmönnum og stjórnarmönnum samstarfið á árinu.
Fundarstjóri gaf því næst Hólmari Svanssyni, framkvæmdastjóra AFE, orðið. Hann hóf mál sitt á því að fara yfir reikninga félagsins en hér má sjá kynningu framkvæmdastjóra AFE í heild.
Að lokinni skýrslu framkvæmdarstjóra gaf fundarstjóri orðið laust um skýrslu stjórnar, framkvæmdarstjóra og reikninga félagsins.
Guðný Sverrisdóttir spurðist fyrir um hvað kosti Suðurnesin hefðu umfram Eyjafjarðarsvæðið varðandi Stálpípugerð. Framkvæmdarstjóri taldi skýringuna liggja í fjarlægðinni frá helstu siglingaleiðum. Ekki kvöddu fleiri sér hljóðs og var því næst gengið til atkvæðagreiðslu um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins. Var það allt samþykkt samhljóða.
Því næst bar framkvæmdarstjóri upp tillögu stjórnar um breytingu á framlögum sveitarfélaganna fyrir árið 2003 sem hljóðaði svona:
Stjórnin leggur til við aðalfund að framlög sveitarfélaga á árinu 2003 verði hækkuð til samræmis við breytingar á vísitölu neysluverðs frá janúar 2001 ( 202,1 stig) til janúar 2002 (221,5 stig) eða 9,6%. Framlög verði kr. 1,808 hjá aðildarfélögum með 300 íbúa eða fleiri og kr. 1,566 hjá sveitarfélögum með færri en 300 íbúa.
Fundarstjóri gaf orðið laust um þessa tillögu en þar sem enginn kvaddi sér hljóð var tillagan samþykkt samhljóma.
Nú var komið að stjórnarkjöri og las fundarstjóri upp nöfn þeirra sem tilnefnd hefðu verið í stjórn AFE en þau eru frá Akureyrarbæ:
Valur Knútsson
Árni Friðriksson
Oktavía Jóhannesdóttir
Frá Hörgárbyggð:
Aðalheiður Eiríksdóttir
Frá Dalvíkurbyggð
Valdimar Bragason
Varamenn voru kosnir: Bjarni Jónasson fyrir fulltrúa Akureyrarbæjar og Rögnvaldur Ingólfsson fyrir sveitarfélögin utan Akureyrar.
Nú var komið að öðrum málum og þar kvaddi Hólmar Svansson, framkvæmdarstjóri félagsins, sér hljóðs og þakkaði fráfarandi stjórnarmönnum fyrir samstarfið og bauð nýja menn velkomna til starfa í stjórn félagsins.
Að loknu fundarhléi flutti Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, erindi um byggðamál. http://idnadarraduneyti.is/interpro/ivr/ivr.nsf/pages/raed020042
Að loknu erindi ráðherrans var orðið gefið laust og fyrstur í pontu var Bjarni Kristjánsson, sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit. Hann ræddi um byggðamál út frá dæmum sem hann upplifir í samskiptum sínum við hið opinbera. Nefndi hann fjarskiptamál, vegagerð og almenningssamgöngur. Í öllum þessum málum, sem varla eru stórmál til úrlausnar, rekst hann á veggi sem virðist erfitt að klífa. Hann velti fyrir sér hvaða virðing það væri gagnvart íbúum landsbyggðarinnar að svona laga viðgengist á þessum tímum. Ráðherra svaraði þessum hugleiðingum Bjarna og tók undir margt af því en benti jafnframt á að margt hefði áunnist. Valur Knútsson, fyrrverandi formaður atvinnumálanefndar Akureyrar, kom inn á verkefni atvinnumálanefndar, KÞ lýsti ánægju sinni með byggðaáætlunina og þær áherslur sem í henni væru. Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, hvatti ráðherra og fundarmenn til að snúa bökum saman og gera byggðamálaumræðuna að landsmáli þ.e. að höfuðborgarbúar tækju þátt í umræðunni því þannig næðis árangur í byggðamálum. Bjarni Kristjánsson vildi ekki að menn tækju orð hans þannig að hann væri að karpa eða væla. Hann ítrekaði að menn ættu að hafa skoðun og láta hana heyrast þótt hún félli ekki öllum í geð. Guðný Sverris þakkaði Bjarna fyrir hans innlegg og sagðist taka undir margt af hans gagnrýni. Sagðist hinsvegar hrifin af þeirri byggðáætlun sem í gangi er. Hún kom einnig inn á umræðuna um stóriðju í Eyjafirði og þá óljósu stefnu sem ríkti til þess máls. Valgerður Sverrisdóttir þakkaði fundarmönnum hvatningarorðin og sagðist trúa því að núverandi byggðaáætlun myndi skila Eyfirðingum árangri. Hún tók undir þau orð Kristjáns Þórs Júlíussonar um að gera þetta að landsmáli. Hún taldi ekki vera almenna andstöðu við áætlunina. Hún ræddi líka stóriðjumálin og aðkomu rússana að því máli í Suður Þingeyjarsýslu. Hafði hún áhyggjur af orkuöflun fyrir þá aðila ef framkvæmdir á Austurlandi gengju eftir. Hún ítrekaði síðan þakkir sínar til fundarmanna fyrir fundinn og umræðurnar.
Fundarstjóri sagði enn tíma fyrir fyrirspurnir en þar sem enginn kvaddi sér hljóðs þakkaði hann fundarmönnum fyrir setuna og umræðurnar og sleit þar með fundinum.
Eftirtaldir sátu aðalfund Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar: Árni V. Friðriksson, Gerður Jónsdóttir, Þóra Ákadóttir, Haukur Halldórsson, Þorgeir Jónsson, Ingimar Ragnarsson, Kristinn Fr. Árnason, Jón Þ. Óskarsson, Marsibil Snæbjarnardóttir, Kristján Þór Júlíusson, Valur Knútsson, Svanhildur Árnadóttir, Dórothea Jóhannsdóttir, Guðný Sverrisdóttir, Valdimar Bragason, Aðalheiður Eiríksdóttir, Árni G. Bjarnason, Bjarni Kristjánsson, Guðrún Pálína Jóhannsdóttir, Gunnar Valur Eyþórsson, Gunnlaugur Magnússon, Júlíanna Ingvadóttir, Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, Rögnvaldur Ingólfsson, Oktavía Jóhannesdóttir, Jóhannes Árnason, Valgerður Jónsdóttir, Sigurður J. Sigurðsson, Hólmar Svansson, Hákon Hákonarson, Ómar Banine, Magnús Þór Ásgeirsson og Benedikt Guðmundsson