Aðalfundur Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar bs.
Fyrir árið 2003
Haldinn í Tjarnarborg Ólafsfirði 14. maí kl. 16:00
Stjórnarformaður AFE Valur Knútsson setti fundinn. Stakk hann upp á Árna Friðrikssyni sem fundarstjóra og Halldóri R. Gíslasyni ritara og var það samþykkt. Árni kynnti dagskrá fundarins og að því loknu var gengið til hefðbundinnar dagskrár sem var eftirfarandi:
- Ávarp: Sigurjón Magnússon framkvæmdastjóri MT bíla
- Skýrsla stjórnarformanns og framkvæmdastjóra
- Ársreikningar kynntir
- Umræður um skýrslu stjórnar og afgreiðslu ársreikninga
- Tillaga stjórnar um breytingu á framlögum sveitarfélaga
- Skipun stjórnar
- Önnur mál
1. Ávarp: Sigurjón Magnússon framkvæmdastjóri MT bíla
Sigurjón Magnússon framkvæmdastjóri MT bíla á Ólafsfirði ávarpaði fundinn. Sigurjón fjallaði um aðkomu AFE að fyrirtækinu og hefði hún verið þónokkur í gegnum árin bæði í formi ýmis konar aðstoðar og ekki síst sem klapp á bakið og móralskur stuðningur sem skiptir miklu máli. Sigurjóni fannst sveitstjórnir ekki sinna AFE nægilega vel og sagði að stuðningurinn yrði að vera góður hvort sem vel eða illa gengi í atvinnumálum.
Sigurjón fór í gegnum sögu og vandamál MT bíla og þær fórnir sem færðar hafa verið til að koma fyrirtækinu á legg. Staðan er þannig að um 30% af fyrirtækinu er nú í eigu einstaklinga frá Ólafsfirði.
Þrátt fyrir að erfiðlega hafi gengið að koma fyrirtækinu á legg er bjart framundan og verkefnastaðan góð, verkefni upp á 130 milljónir eru á markaðinum. MT bílar eru einnig að vinna í endurnýtanlegri yfirbyggingu fyrir bíla, yfirbyggingin verður bráðlega send til Þýskalands í vottun og ef allt gengur upp er MT bílar komnir með einstaka vöru á markaðinn sem getur lækkað kostnað við slökkvibíla um 30%.
2. Skýrsla stjórnarformanns og framkvæmdastjóra
Valur Knútsson stjórnarformaður AFE kynnti skýrslu stjórnar. Árið 2003 var viðburðaríkt hjá AFE en síðasta starfsár var fyrsta starfsárið í breyttu umhverfi. Breytingar voru gerðar í starfsmannamálum og starfsemin flutt búferlum.
Stjórnarformaður fór yfir þau áhersluatriði sem félagið hefur sett sér að vinna að með starfsemi sinni þau eru:
- Mótun samræmdrar atvinnustefnu fyrir Eyjafjarðarsvæðið í samvinnu við hlutaðeigandi aðila
- AFE framkvæmdaraðili sveitastjórna á sérverkefnum á sviði atvinnumála
- AFE vinni að þróunar- og markaðsverkefnum
Verkefni eru í gangi á öllum þessum sviðum og fór stjórnarformaður yfir helstu verkefni liðins árs. Fram komi að nýlega hafi erindi komið frá Iðnaðar- og viðskiparáðuneytinu um að félagið taki að sér verkefnastjórnun á einstökum verkefnum er tengjast framkvæmd byggðaáætlunar fyrir Eyjafjörð.
Framkvæmdastjóri fór yfir liðið starfsár og fór yfir þær breytingar sem orðið hafa á félaginu. Farið var yfir helstu verkefni ársins, fjölda þeirra og kostnað við dýrustu verkefnin. Kom fram að á síðasta ári voru unnin 70 verkefni samanborið við 157 frá árinu áður og að tíu dýrustu verkefnin voru með 67% kostnaðar. Helstu verkefnin sem unnin voru á síðasta ári voru:
- Vinna með álþéttaframleiðanda
- Air Greenland
- Byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð
- BRANDR – NPP verkefni
- EteB – Rafræn viðskipti
- Flutningur og breytingar
- International Training Academy
- Önnur smærri verkefni
3. Ársreikningar kynntir
Framkvæmdastjóri kynnti ársreikning fyrir rekstrarárið 2003 og áætlun fyrir árið 2004. Tap varð af rekstri félagsins upp á 1.800.179- kr. Framkvæmdastjóri skýrði frá ástæðum fyrir þessari niðurstöðu, sem er m.a. vegna afskrifta eigna, og að áætlanir fyrir árið 2004 gera ráð fyrir um 700.000- kr hagnaði.
4. Umræður um skýrslu stjórnar og afgreiðslu ársreikninga
Engar umræður.
Ársreikningur borinn upp til samþykktar. Samþykktur samhljóða.
5. Tillaga stjórnar um breytingu á framlögum sveitarfélaga
Lögð fram breytingartillaga um framlög sveitarfélaga til AFE. Breyting felst í að framlög sveitarfélaga verði framvegis vísitölutengd við neysluvísitölu og taki breytingum með hliðsjón af henni. Breyting miðast við árslok 2003.
Breyting samþykkt samhljóða.
6. Skipun stjórnar
Gerð var tillaga um óbreytta stjórn. Samþykkt samhljóða.
Í stjórn AFE eru:
Árni V. Friðriksson - Akureyri, Oktavía Jóhannesdóttir - Akureyri, Valur Knútsson - Akureyri, Stefanía Traustadóttir - Ólafsfjörður og Jóhann Ingólfsson - Grýtubakkahreppi.
Varamenn eru Valdimar Bragason – Dalvíkurbyggð og Bjarni Jónasson – Akureyri.
7. Önnur mál
Kristján Þór þakkaði stjórn störf og lýsti yfir ánægju með starfsmennina. Kristján lagði áherslu á að málefnum um orkufrekan iðnað yrði sinnt og að önnur sveitarfélög á svæðinu þurfa að koma að umræðunni. Um þetta mál þarf að vera breið samstaða á svæðinu hjá öllum hagsmunaaðilum. Breytt viðhorf er í dag til orkufreks iðnaðaðar miðað við síðustu áratugi síðustu aldar.
Jóhann Ingólfsson fjallaði um mikilvægi þess að atvinnulífið sé vel stutt. Jóhann tók undir með Kristjáni að sveitastjórnir eigi að koma að stóriðjumálum og að aðilar verði að þjappa sér saman um þetta mál.
Magnús þakkaði hlý orð í garð félagsins og minntist á þá hugmynd sem verið hefur í vinnslu að byggja íslenskt álver og framhaldsvinnu varðandi álþéttaframleiðanda.
Valur sagði að varðandi stóriðjumál þá ætti að láta hagkvæmni ráða hvaða staður á norðurlandi verður fyrir valinu.
Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 18:00
Fundargerð ritaði Halldór R. Gíslason